Í þeirri umræðu sem hefir verið undanfarið um ætlaða hækkun auðlindagjalds hefur mörgum orðið tíðrætt um að svör útgerðarmanna og hagsmunasamtaka þeirra séu til marks um skort á einhverskonar þegnskap og vöntun á vilja til að greiða til samneyslunnar. Þessi umræða fer gjarnan út í það að tala um „grátkór“ þar sem hagsmunaaðilar í sjávarútvegi eru. Af þessu má stundum hafa gaman og Kristján Ragnarsson, sem var eitt sinn framkvæmdastjóri LÍU, var gjarnan teiknaður með tár í auga af Sigmund, þáverandi skopmyndateiknara Morgunblaðsins. Kristján hafði í aðra röndina gaman af þessu og fjölskylda hans safnaði þessu saman í tvær stórar úrklippumöppur sem Kristján sýndi mér eitt sinn. Af sumu má hafa gaman af þó að umræðan geti verið hatrömm.
Mestu skiptir þó að missa ekki sjónar á raunverulegum viðfangsefnum sem í þessu tilviki ganga út á að finna skynsama og heilbrigða lausn sem nýtist efnahag landsins sem best.
Ofurskattar svipta menn tækifærum
Það er ekki alltaf svo að hækkun á sköttum leiði til efnahagslegrar farsældar. Þvert á móti geta slíkar hækkanir haft margar óæskilegar hliðarverkanir. Verst er að þær geta svipt samfélagið framtíðarhagnaði sem byggist á því að einstaklingar noti fjármuni til skynsamlegra og arðbærra fjárfestinga. Tap á tækifærum í framtíðinni verður aldrei metið til fjár.
En svo getur skattheimta verið svo ósanngjörn að hún slítur friðinn. Á meðan Harold Wilson var forsætisráðherra Bretlands (1964–1970 og 1974–1976), innleiddi stjórn Verkamannaflokksins háa skatta. Þar á meðal voru illa þokkaðir „ofurskattar“ á hátekjufólk, sem gátu numið allt að 83% á launatekjur og 98% á fjármagnstekjur. Þessir skattar leiddu til þess að nokkrir þekktir breskir listamenn og frægðarmenni fluttu úr landi til að forðast skattbyrðina. Það er fróðlegt að rifja upp nokkra þessara listamanna því nú hafa einstaka listamenn á Íslandi verið framalega í hópi þeirra sem sækjast eftir ofurskattlagningu á útgerðina, eða hvað er hægt að kalla skattlagningu ofan á alla venjulega skatta nema ofurskatt?
Grátkór breskra listamanna
Fyrst skal fræga telja Bítlana en George Harrison lýsti gremju sinni yfir skattkerfinu í verkum sínum, til dæmis í laginu Taxman með Bítlunum. Textinn vísar beint til skattheimtunnar („one for you, nineteen for me“) og nefnir jafnvel pólitíska leiðtoga eins og Wilson og Edward Heath. Hér hefur áður verið fjallað í pistli um aðgerðir verkamannapitanna frá Liverpool gagnvart þessari ofurskattlagningu.
Víkjum þá að hinni ofurhljómsveit Breta, The Rolling Stones. Meðlimir hljómsveitarinnar, sérstaklega Mick Jagger og Keith Richards, fluttu til Suður-Frakklands árið 1971, meðal annars til að forðast háa skatta í Bretlandi. Þetta var í tengslum við upptökur á plötunni Exile on Main St., sem var tekin upp í Frakklandi. Skattarnir voru ein af ástæðunum fyrir brottför þeirra en einnig spiluðu inn í fjárhagsvandræði vegna slæmra samninga. Meðlimir beggja hljómsveita töldu þetta hafa verið vondar ráðstafanir enda var erfitt að flytja fjármuni milli landa og mikið af peningunum fór í alls konar sérfræðinga. En þeir voru einnig sammála um að skattlagningin hafði gengið úr hófi. Seinni ár hafa breskir fjölmiðlar sagt að Rollingarnir noti skattaskjól í Hollandi til að komast hjá sköttum.
David Bowie flutti til Sviss og síðar til Bandaríkjanna á áttunda áratugnum. Þótt listrænar ástæður hafi einnig haft eitthvað að segja, var skattkerfið í Bretlandi mikilvægur þáttur í ákvörðun hans um að búa erlendis, sérstaklega á þeim tíma sem hann bjó í Genf.
Sama má segja um Rod Stewart en söngvarinn rámi flutti til Bandaríkjanna árið 1975, og hann gaf sjálfur upp að háir skattar í Bretlandi væru ein af ástæðunum. Hann settist að í Los Angeles, þar sem hann hélt áfram ferli sínum.
Elton John bjó tímabundið í Bandaríkjunum og öðrum löndum á áttunda áratugnum og skattamál voru talin ein af ástæðunum fyrir dvöl hans erlendis, þótt hann hafi einnig verið að vinna að alþjóðlegum ferli.
Margaret Thatcher dregur menn heim
Sumir meðlimir Pink Floyd, eins og David Gilmour, dvöldu erlendis á áttunda áratugnum vegna skattamála. Hljómsveitin tók upp hluta af plötum sínum, eins og Wish You Were Here, með skattkerfið í huga.
The Kinks, sérstaklega Ray Davies, aðalsöngvari og lagasmiður hljómsveitarinnar, forðuðust að einhverju leyti háa skatta í Bretlandi þótt þeir hafi ekki flutt formlega úr landi eins og sumir aðrir listamenn. Í staðinn dvöldu þeir tímabundið erlendis og nýttu sér ýmsar aðferðir til að lágmarka skattbyrði.
Ray Davies vísaði beint til skattheimtu í laginu Sunny Afternoon (1966), þar sem hann lýsir ríkum manni sem missir auð sinn vegna „taxman’s taken all my dough.“ Þetta endurspeglar gremju hans og annarra listamanna gagnvart skattkerfinu. Lagið var skrifað í samhengi við persónulega reynslu Davies. Ray Davies talaði opinskátt um það í viðtölum hvernig fjárhagsþrýstingur, þar á meðal skattar, hafði áhrif á sköpun hans og lífsstíl, sem sést í textum hans um peninga og samfélagsgagnrýni.
Þessi „skattaflótti“ var ekki eingöngu bundinn við listamenn heldur einnig aðra hátekjuhópa, eins og kaupsýslumenn og leikara, til dæmis Michael Caine og Sean Connery.
Flestir þessara listamanna sneru aftur til Bretlands þegar skattkerfið mildaðist, sérstaklega eftir að Íhaldsflokkurinn undir stjórn Margaret Thatcher lækkaði skatta á níunda áratugnum. Um hana voru svo sungnir aðrir söngvar, en það er önnur saga.