Í umræðu um sjávarútveg hér á landi mættu margir horfa til kenninga og rannsókna dr. Þráins Eggertssonar sem kom með mikilvægt framlag til nýstofnanahagfræði (e. new institutional economics) og efnahagslegrar greiningar á stofnunum og eignarrétti. Hagfræðikenningar Þráins snúast fyrst og fremst um hvernig stofnanir (e. institutions), eins og lagakerfi, eignarréttur og samningar, móta efnahagslega hegðun og árangur samfélaga. Fyrir okkur sem höfum áhuga á hagsögu eru kenningar hans og nálgun einnig upplýsandi.
Þráinn (f.1942) er án efa einn merkasti fræðimaður okkar Íslendinga á sviði hagfræði en hann lagði eins og áður sagði áherslu á mikilvægi stofnana eins og þær birtast í reglum, lögum, venjum og skipulagi sem stýra hegðun einstaklinga og fyrirtækja. Óhætt er að segja að hann hafi fært alþjóðlegar kenningar nær íslensku og alþjóðlegu samhengi.
Stofnanir skipta sköpum fyrir hagkvæmni markaða og hvernig auðlindir eru nýttar. Hagfræðikenningar Þráins Eggertssonar ganga út á að skilja hvernig stofnanir, eignarréttur og fyrirkomulagskostnaður móta efnahagslega hegðun og árangur. Hann lagði áherslu á mikilvægi skýrra reglna og traustra stofnana til að draga úr óvissu og stuðla að hagvexti, með sérstakri athygli á íslensku samhengi eins og fiskveiðistjórnun. Kenningar hans bjóða upp á hagnýta nálgun til að greina hvernig samfélög geta nýtt auðlindir sínar á skilvirkan og sjálfbæran hátt.
Fyrirtækin skapa auðlindarentuna
Þar sem umræðan um íslenskan sjávarútveg byggist oft á heldur ruglingslegri hugmynd um auðlind og auðlindarentu getur verið gott að leita í rannsóknir og kenningar Þráins. Margir nálgast umræðuna þannig að sjórinn haldi til haga auðlindarentu, sem er í eigu þjóðarinnar, og svo sé það einungis hlutverk útgerðarinnar að sækja þessi „auðæfi“ á bátum sínum. Fyrir vikið eigi útgerðin að fá greitt fyrir róðurinn, rétt eins og þegar leigubílstjóra er borgað fyrir aksturinn, en ekkert umfram taxta. Þetta telur Þráinn fráleitt en hann sagði þetta í viðtali við tímaritið Frjálsa verslun í lok árs 2013:
„Sjávarútvegsfyrirtæki og starfsfólk þeirra eru ekki sendlar þjóðarinnar sem sækja fyrir hana gullmola í greipar Ægis gegn hóflegu gjaldi. Fyrirtækin skapa auðlindarentuna með nýjungum í veiðum, vinnslu og markaðssetningu, ef umhverfi þeirra hvetur til slíks framtaks. Hugtakið auðlindarenta er úrelt hugmynd frá fyrri öldum þegar hagfræðingar gerðu sér ekki grein fyrir eðli áhættu og mikilvægi stofnana og athafnasemi fyrir verðmætasköpun.“
Það er vert að hafa í huga að upp úr 1990 fólu landsmenn sjávarútveginum að skapa sinn eigin rekstrargrundvöll innan regluverks sem sett var upp sem meðal annars átti að tryggja vernd og sjálfbæra nýtingu fiskistofna. Þessi tilraun tókst svo vel að íslenskur sjávarútvegur er einstakur á heimsvísu og nú vill sitjandi ríkisstjórn leggja 76% skatt á útgerðina. Að því leyti má segja að sjávarútvegurinn hafi orðið fórnarlamb eigin velgengni.
Eignarréttur og sameiginlegar auðlindir
Ein af lykilkenningum Þráins laut að því að skýr og vel skilgreindur eignarréttur (e. property rights) sé grundvöllur hagvaxtar og skilvirkrar nýtingar auðlinda. Óskýr eignarréttur getur leitt til „auðlindaharms“ („tragedy of the commons“), þar sem auðlindir eru ofnýttar vegna skorts á ábyrgð eignarhaldsins. Þráinn rannsakaði þetta meðal annars í tengslum við fiskveiðar á Íslandi þar sem hann taldi að kvótakerfið væri dæmi um hvernig eignarréttur yfir sameiginlegum auðlindum getur stuðlað að sjálfbærni.
Þráinn notaði hugtakið fyrirkomulagskostnað (e. transaction costs) til að útskýra hvers vegna sum hagkerfi ná betri árangri en önnur. Fyrirkomulagskostnaður felur í sér kostnað við að semja um samninga, framfylgja þeim og tryggja traust í viðskiptum. Hann hélt því fram að stofnanir sem lækka þennan kostnað (t.d. með skýrum lögum og traustum dómstólum) stuðli að hagvexti. Undanfarna áratugi hefur sjávarútvegurinn lagt verulega til hagvaxtar í landinu með skilvirkum rekstri sínum.
Efnahagsleg hegðun og óvissa
En nú er það hin pólitíska óvissa sem skapar stærstu vandamálin í sjávarútvegi. Þráinn rannsakaði einmitt hvernig óvissa í hagkerfum, til dæmis vegna óskýrra reglna eða óstöðugs pólitísks umhverfis, hefur áhrif á ákvarðanatöku einstaklinga og fyrirtækja. Hann lagði áherslu á að góðar stofnanir draga úr óvissu og skapa stöðugleika, sem skiptir máli fyrir fjárfestingar og langtímaáætlanir.
Í verkum sínum beitti Þráinn kenningum sínum á íslenskt efnahagslíf, sérstaklega í tengslum við fiskveiðistjórnun og landbúnað. Hann skoðaði hvernig íslenskar stofnanir, eins og kvótakerfið, mótuðu efnahagslega hegðun og studdu sjálfbæra nýtingu auðlinda.
Kvótakerfið er velheppnuð lausn
Þráinn leit á kvótakerfið sem leið til að úthluta eignarrétti á fiskistofnum, sem áður voru sameiginleg auðlind (e. common-pool resource). Án skýrs eignarréttar væri hætta á ofveiði, eða auðlindaharminum sem áður var vikið að. Með kvótakerfinu fengu útgerðir skýran rétt til að veiða ákveðið magn fisks, sem hvatti til ábyrgari nýtingar.
Þráinn einblíndi frekar á að greina hvernig kvótakerfið virkar sem stofnun heldur en að mæla með sérstökum stefnum, eins og auðlindaskatti. Hann leit á kvótakerfið sem vel heppnaða lausn til að koma í veg fyrir ofveiði, en hann ræddi einnig hvernig pólitískar og félagslegar spurningar, eins og skipting rentunnar, þyrftu að leysast innan ramma stofnana samfélagsins.
Hann benti á að kvótakerfið minnkaði fyrirkomulagskostnað (e. transaction costs) með því að skapa skýrar reglur um hverjir mega veiða og hversu mikið. Það hafi dregið úr óvissu og átökum milli útgerða og auðveldað stjórnun fiskistofna.
Samanburður við aðrar kenningar
Ólíkt klassískri hagfræði, sem leggur áherslu á markaðsverð og framboð/eftirspurn, einblína kenningar Þráins á „leikreglur“ hagkerfisins. Hann tók mið af nýklassískri hagfræði en bætti við félagslegum og sögulegum þáttum, svipað og hagfræðingurinn Douglass North. Í samanburði við sósíalískar kenningar, til dæmis Oskar Lange, sem lögðu áherslu á miðstýringu, studdi Þráinn markaðslausnir studdar sterkum stofnunum. Helstu rit Þráins eru Economic Behavior and Institutions (1990). Þar útskýrir hann grundvallaratriði nýstofnanahagfræði og hvernig stofnanir móta efnahagslega hegðun. Í bókinni Imperfect Institutions (2005) fjallar hann um hvernig ófullkomnar stofnanir geta samt skapað hagvöxt ef þær eru nógu sveigjanlegar og laga sig að breyttum aðstæðum. Íslenskir lesendur geta lesið bókina Háskaleg hagkerfi - tækifæri og takmarkanir umbóta (gefin út 2007) til að kynnast kenningum Þráins en til hennar hefur verið vitnað nokkrum sinnum hér í pistlum.
Í verkum sínum notaði Þráinn íslenska kvótakerfið sem raunverulegt dæmi um beitingu nýstofnanahagfræði. Hann taldi kerfið sýna hvernig skýr eignarréttarskipan, studd lögum og eftirliti, getur umbreytt auðlindanýtingu frá óreiðu yfir í skipulega og sjálfbæra stjórnun. Það myndi hjálpa umræðunni núna mikið ef menn hefðu þekkingu á rannsóknum og kenningum Þráins.