Flugfélagið Play hefur tryggt sér áskriftarloforð fyrir 20 milljónum bandaríkjadala, eða andvirði um 2.425 milljónum króna. Fjármögnunin verður í formi útgáfu breytanlegs skuldabréfs til tveggja ára.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Play.
Á meðal þeirra sem taka þátt í þessari fjármögnun eru stærstu eigendur félagsins og aðrir íslenskir fjárfestar. Er það skýr stuðningsyfirlýsing við áframhaldandi uppbyggingu Play og breytingar sem boðaðar hafa verið á viðskiptalíkani félagsins:
Á sama tíma er fallið frá boðuðu yfirtökutilboði í allt hlutafé Fly Play hf. Samtöl við hluthafa leiddu í ljós að vilji þeirra er að Play hafi hlutabréf sín skráð á aðalmarkaði. Yfirtökuhópurinn féll því frá áformum um yfirtökutilboð og styðja áfram við félagið á komandi vegferð.
„Við áttum mörg góð samtöl við hluthafa þar sem þeir lýstu yfir miklum vilja til að hafa félagið áfram skráð á aðalmarkaði Kauphallar. Þess vegna var þessi leið farin við útfærslu á fjármögnun félagsins. Félagið hefur þess í stað safnað áskriftarloforðum að breytanlegu skuldabréfi að upphæð 2.425 m.kr. Þessi niðurstaða er skýr stuðningsyfirlýsing við áætlanir félagsins og áframhaldandi uppbyggingu. Viðbrögðin við nýju viðskiptamódeli eru góð og það er ánægjulegt að sjá aukið vægi stofnanafjárfesta í þessari fjármögnunarlotu.
Við höfum nú þegar séð jákvæð áhrif breytts viðskiptalíkans á rekstur félagsins þar sem við einblínum á flugleiðir sem skila góðri afkomu og leigjum út þotur í arðbær verkefni til annarra flugrekenda. Við ætlum að byggja upp öflugt og gott flugfélag sem Íslendingar velja og höldum ótrauð áfram á þeirri braut,“ er haft eftir Einari Erni Ólafssyni, forstjóra Play, í tilkynningu.