Fjárhagsstaða Reykjavíkurborgar á fyrsta ársfjórðungi 2025 dregur að mörgu leyti upp mynd af rekstri sem stendur ekki undir eigin skuldbindingum og má því segja að sé ósjálfbær, ef marka má nýbirt rekstraruppgjör A-hluta borgarinnar.
Rekstrarniðurstaðan fyrstu þrjá mánuði ársins reyndist umtalsvert lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir, neikvæð um 5,4 milljarða króna. Það er nær einum milljarði lakari niðurstaða en gert var ráð fyrir í samþykktri fjárhagsáætlun.
Þrátt fyrir að skatttekjur hafi farið fram úr áætlun, einkum vegna hærra útsvars, hefur það ekki vegið upp á móti mikilli aukningu launakostnaðar og hækkunar lífeyrisskuldbindinga. Samkvæmt skýrslunni hækkuðu lífeyrisskuldbindingar borgarinnar um 3 milljarða króna á tímabilinu, sem er 2,3 milljörðum yfir áætlun. Heildarlaunakostnaður með lífeyrisskuldbindingum nam tæpum 30 milljörðum króna og var 2,75 milljörðum yfir áætlun.
Reksturinn sjálfur skilar afar litlu handbæru fé til að standa undir fjárhagsskuldbindingum til skemmri tíma, og hlutfall veltufjár frá rekstri af tekjum er langt undir markmiðum fjármálastefnu borgarinnar. Samkvæmt uppgjörinu nemur það aðeins 1,4%, en stefnt er að því að það sé yfir 7,5%.
Auk þess hafa skuldir og skuldbindingar borgarinnar aukist verulega frá áramótum og nema nú yfir 211 milljörðum króna. Þar af eru langtímaskuldir 137,5 milljarðar króna og lífeyrisskuldbindingar tæplega 39 milljarðar.
Þótt handbært fé hafi aukist um ríflega 2,5 milljarða á tímabilinu er ljóst af gögnum skýrslunnar að sú aukning stafar ekki af sterkum rekstri heldur einkum af lántöku og fjárhagslegum tilfærslum.
Reksturinn sem hér birtist gefur vísbendingar um að borgin reiði sig í vaxandi mæli á lántökur til að mæta fjárhagslegum skuldbindingum, frekar en að hefðbundinn rekstur skili nægjanlegu fé. Slík þróun er ekki sjálfbær til lengri tíma litið og undirstrikar nauðsyn þess að haldið sé aftur af útgjaldaaukningu og horft til raunhæfra lausna í fjármálum borgarinnar.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.