Fjöldi sumarhúsa á Íslandi hefur aukist jafnt og þétt síðustu ár og voru þau orðin rúmlega 15 þúsund í lok árs 2024, samkvæmt því sem fram kemur í Hagsjá Landsbankans í dag. Það er rúmlega 45% fjölgun frá árinu 2005 og hefur vöxturinn haldist nokkuð stöðugur frá árinu 2015.
Fram kemur að flest sumarhús séu á Suður- og Vesturlandi. Á Suðurlandi eru rúmlega helmingur allra sumarhúsa landsins og tæpur fjórðungur á Vesturlandi. Hlutfallslega hefur þó fjölgunin verið mest á Norðurlandi síðustu tvo áratugi, eða um 57,3%.
Sala á sumarhúsum hefur verið sveiflukennd síðustu ár en tók verulega við sér í kjölfar heimsfaraldursins. Kaupsamningum um sumarhús fjölgaði um 84% milli áranna 2019 og 2020. Eftir hægagang á árunum 2022 og 2023 virðist markaðurinn nú aftur á uppleið. Kaupsamningum fjölgaði um 25% á síðasta ári.
Bankinn bendir á að verðhækkanir á sumarhúsum fylgdu aukinni eftirspurn á faraldurstímum og hækkaði meðalfermetraverð þá um allt að 24% á milli ára. Síðustu tvö ár hefur dregið úr hækkunum. Á síðasta ári var meðalfermetraverð seldra sumarhúsa um 562 þúsund krónur, sem er 2,9% hækkun frá fyrra ári. Til samanburðar hækkaði íbúðarhúsnæði á landsbyggðinni um 9,9% á sama tíma.