Svipmynd: Stjórnmálin skilja ekki atvinnulífið

Lögmál Murphys, það eru hinu einu sönnu ólög, segir Benedikt …
Lögmál Murphys, það eru hinu einu sönnu ólög, segir Benedikt S. Benediktsson. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Benedikt S. Benediktsson, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir að á vettvangi samtakanna séu m.a. fyrirtæki sem hlúa að frjósemi manna, reki til að mynda leik- og grunnskóla, standi í rekstri dagvöruverslana, sérverslana og heildsölu, sinni ökukennslu, annist sölu fatnaðar, áfengis og eldsneytis, sinni túlkun og standi fyrir ýmiss konar fyrirtækjaráðgjöf. Benedikt segir að það hafi gefið sér ákveðna innsýn að hafa unnið á Alþingi, í ráðuneyti og atvinnulífinu. Hann segir það koma fyrir að stjórnmálin skilji ekki atvinnulífið, sem að sama skapi skilji ekki stjórnmálin.

Að hans mati gerir það fólki gott að sinna störfum í atvinnulífinu áður en það heldur til starfa innan stjórnsýslunnar eða sest á þing, þar sem bæði starfsmönnum stjórnsýslunnar og þingmönnum sé oft gert að setja sig í spor forsvarsmanna fyrirtækja eða reksturs sem þeir hafi einfaldlega litla þekkingu á, að hans sögn.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?

Áskoranirnar í rekstrinum eru sífellt af sama meiði, þ.e. að leiða fólki fyrir sjónir að fyrirtæki í atvinnulífinu ráða ekki við hvaða kröfur og byrði sem er og að í upphafi þurfi endinn að skoða. Það tengist óhjákvæmilega þeirri áskorun samtímans að margir virðast halda að fyrirtækjarekstur sé jafnvel ekki hluti af samfélaginu heldur verkefni afmarkaðs hóps sem hafi takmarkað með það að gera að hafa skoðun á fyrirhuguðum breytingum eða hvernig samfélagið virkar.

Hvað gerirðu til að fá orku og innblástur í starfi?

Ég stunda mína andlegu íhugun í ræktinni, helst með einhver lóð. Það er góð leið til að hreinsa hugann og endurskipuleggja þankagang. Lestur heldur hausnum virkum og breikkar sjóndeildarhringinn. Innblástur fæ ég hvað helst frá stjórnendum fyrirtækja sem ég er í reglulegu sambandi við. Það má alveg dást að orku þeirra, útsjónarsemi og úthaldi.

Hver eru helstu verkefnin fram undan?

Ég tók við stöðu framkvæmdastjóra SVÞ síðastliðið haust og ný stjórn SVÞ var kjörin í mars síðastliðnum. Stóra verkefnið fram undan er að móta áherslur samtakanna til komandi tíma í takt við samtímann og þær áskoranir sem honum fylgja.

Hver var síðasti fyrirlesturinn eða ráðstefnan sem þú sóttir?

Ég sæki reglulega fundi og ráðstefnur vegna vinnunnar og vildi hafa tíma til að sækja fleiri. Ég sótti nýverið fyrirlestur á vegum Eurocommerce þar sem varpað var ljósi á áhrif tollastríðs Trumps í Evrópu m.t.t. fyrirtækja í smásölu og heildsölu. Það var einstaklega fróðlegt en varpaði einnig ljósi á hvað það getur verið mikill styrkur í sérstöðu litla Íslands.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á hvernig þú starfar?

Það er erfitt að segja þar sem manni dettur alltaf í hug það sem maður las síðast. Lifað með öldinni eftir Sigurð Nordal setti söguna í mikilvægt samhengi og lagði til söguskýringu sem ég hef alltaf í huga. The art of winning var þarfur lestur. A Short History of Financial Euphoria inniheldur ágæta umfjöllun, sérstaklega aftarlega. Grein Calebs Thomsons með heitið Philosophy and the Corruption of Language hafði sterk áhrif á mig og gerir enn.

Hvernig heldurðu þekkingu þinni við?

Fyrst og fremst með lestri og hlustun á hlaðvörp.

Hugsarðu vel um heilsuna?

Já og nei. Er duglegur að mæta í hreyfingu en mætti huga að mataræðinu. Smjör og ostar eru dæmi um eitthvað sem ég ágirnist um of.

Hvert væri draumastarfið ef þú þyrftir að finna þér nýtt starf?

Þessu er erfitt að svara en ég er þeirrar gerðar að skattar hafa alltaf heillað mig.

Hvað myndir þú læra ef þú fengir að bæta við þig nýrri gráðu?

Ég mundi bæta við gráðu í hagfræði. Bæði er hún á áhugasviðinu og myndi líka mynda hið fullkomna kombó, lögfræði og hagfræði.

Hvaða kosti og galla sérðu við rekstrarumhverfið?

Kostirnir eru margir, fjölbreytni, frábært fólk og spennandi viðfangsefni til dæmis. Ókostirnir eru sennilega hin hliðin á peningnum, mikil breidd og of lítill tími í heiminum til að öðlast djúpa þekkingu og nýta hana.

Hvaða lögum myndirðu breyta ef þú værir einráður í einn dag?

Lögmáli Murphys, það eru hin einu sönnu ólög. Þar á eftir áfengislöggjöfinni sem er dottin úr sambandi við nútímann og veruleikann.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
OSZAR »