Donald Trump skaut föstum skotum á bandaríska seðlabankann á laugardag og hvatti Jerome Powell seðlabankastjóra til að lækka stýrivexti með hraði.
Trump lét heyra í sér á samfélagsmiðlinum Truth Social þar sem hann skrifaði – í hástöfum – að nær algjör samhljómur væri um að seðlabankinn ætti að lækka vexti fyrr en síðar. Sagði hann Powell frægan að endemum fyrir að vera seinn að bregðast við og að hann myndi líklega „klúðra málunum enn eina ferðina“.
Trump hefur sveiflast á milli þess að annars vegar segjast styðja sjálfstæði seðlabankans og hins vegar gagnrýna Powell og leggja hart að honum að lækka vexti. Telur Trump löngu tímabært að lækka vexti en með því mætti mögulega milda neikvæð áhrif tollainngripa Trumps á bandarískan efnahag. Þá myndi vaxtalækkun örva hagkerfið og líklega leiða til hækkunar á hlutabréfamörkuðum.
Peningastefnunefnd seðlabankans ákvað fyrr í mánuðinum að halda stýrivöxtum óbreyttum, en vextir hafa ekki verið lækkaðir síðan í desember á síðasta ári og eru nú á bilinu 4,25 til 4,5%.
Trump beindi líka spjótum sínum að Walmart um helgina, en verslanakeðjurisinn varaði við því í síðustu viku að verð á ýmsum neytendavörum kynni að fara hækkandi vegna tollastefnu Trumps. Lét Doug McMillon, forstjóri Walmart, hafa eftir sér að jafnvel þó að Kína og Bandaríkin hefðu samið um að lækka gagnkvæma ofurtolla þá myndi engu að síður vera óhjákvæmilegt að hækka vöruverð. Sagði McMillon að vöruverð gæti byrjað að hækka strax í þessum mánuði.
Í samfélagsmiðlafærslu sagði Trump að Walmart ætti að taka á sig kostnaðinn af tollunum, eða „éta tollana“ eins og forsetinn orðaði það. Trump sagði jafnframt að Walmart hefði hagnast um milljarða dala í fyrra en með því gaf hann í skyn að félagið gæti ráðið við þennan viðbótarkostnað frekar en að velta honum yfir á viðskiptavini sína. „Ég mun fylgjast með, og það munu viðskiptavinir ykkar gera líka,“ sagði hann.
Scott Bessent, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, fylgdi þessu eftir í viðtali hjá sjónvarpsstöðinni NBC á sunnudag þar sem hann kvaðst hafa átt samtal við McMilllon og að Walmart myndi taka á sig hluta af þeim verðhækkunum sem annars hefðu orðið vegna tollahækkana Trumps. Lét Bessent fljóta með að það sem skipti viðskiptavini Walmart mestu máli væri að eldsneytisverð hefði hríðlækkað frá því Trump komst til valda.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.