Allt gull komist fyrir í sundlaug

Eldur Ólafsson, forstjóri Amaroq Minerals, var gestur Stefáns Einars Stefánssonar …
Eldur Ólafsson, forstjóri Amaroq Minerals, var gestur Stefáns Einars Stefánssonar á fundinum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Allt gull sem framleitt hefur verið í heiminum er um 100.000 tonn og kemst fyrir í einni sundlaug. Þetta kom fram í máli Elds Ólafssonar, forstjóra Amaroq Minerals, á fundi Morgunblaðsins, Kompanís, sem fram fór í Hádegismóum í gær. Eldur var gestur Stefáns Einars Stefánssonar og var rætt um feril Elds, uppbyggingu Amaroq, gullvinnslu og fleira.

Spurður hvers vegna honum hafi dottið í hug að hefja námuvinnslu á Suður-Grænlandi segir Eldur að sé litið til baka hafi hann verið of ungur og vitlaus til að átta sig á því hversu erfitt þetta yrði.

„Ef ég myndi vita það sem ég veit í dag hefði ég sennilega ekki farið út í þetta. Það er margt sem getur farið úrskeiðis í þessum geira,“ segir Eldur og bætir við að á margan hátt sé þetta erfiðasti geirinn af þeim öllum.

„Á endanum er það samt þannig að það er auðlindin sem skiptir mestu máli. Ef hún er til staðar þá er hægt að fá fólk til að vinna úr hinu og þessu en ef auðlindin er ekki nógu góð þá ertu í miklum vanda,“ segir Eldur.

Tekjulaus í 11 ár

Eldur segir að það þekki það allir fyrirtækjaeigendur að það tekur mörg ár að byggja upp stöndugt fyrirtæki og að gera slíkt vel. Amaroq Minerals var án tekna í um 11 ár.

„Við getum nú búið til gott tekjuflæði úr gullnámunni og nýtt það til að leita að kopar og nikkeli. Ef ég væri að byggja upp námu á ný í dag myndi ég þó gera margt öðruvísi,“ segir Eldur og lýsir því að mun meiri þekking sé til staðar í fyrirtækinu nú en þá.

Spurður hver hafi verið stærsta áskorunin við uppbyggingu fyrirtækisins segir Eldur að það hafi verið þær fórnir sem hafi þurft að færa.

„Það var gríðarlegur lærdómur að byggja upp fyrirtækið. Við vorum fáliðuð oft á tíðum og fyrirtækið í örum vexti. Við vorum að takast á við verkefni sem við höfðum ekki fullan skilning á,“ segir Eldur og bætir við að sú mikla vinna hafi á köflum komið niður á fjölskyldulífinu.

„Slíkar fórnir til lengri tíma fela í sér mikla áhættu. Ætli það hafi ekki verið stærsta brekkan,“ segir Eldur.

Spurður hvernig það horfi við honum að Donald Trump Bandaríkjaforseti ásælist Grænland segist Eldur hafa skilning á sjónarmiðum Bandaríkjanna.

„Ég tel að Amaroq geti verið í lykilhlutverki í uppbyggingu á Grænlandi í samstarfi við önnur lönd,“ segir Eldur.

Fjölmennt var á Kompaní-fundinum í Hádegismóum í gær.
Fjölmennt var á Kompaní-fundinum í Hádegismóum í gær. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Öflugur viðskiptaklúbbur

Kompaní er viðskiptaklúbbur Morgunblaðsins og mbl.is og er ætlað að sameina starfandi fólk á Íslandi. Kompaní er þannig vettvangur miðla Árvakurs til að veita viðskiptavinum enn betri þjónustu þar sem hægt er að hlýða á fræðslufundi og fyrirlestra, fylgjast með nýjungum og læra af reynslu annarra sem þekkja hvað það er að reka fyrirtæki á Íslandi. Á fundinum sem fram fór í gær gæddu gestir sér á veitingum frá Finnsson Bistro.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
OSZAR »