Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri CCP, segir í samtali við ViðskiptaMoggann að samkeppnisstaða CCP sé nokkuð traust. Vörumerkið sé vel þekkt, bæði innan iðnaðarins og meðal spilara, ekki síst vegna þess að fá leikjafyrirtæki í heiminum hafi náð að starfa í meira en tuttugu ár samfleytt. Fanfest-ráðstefnan í Hörpunni sé eitt þeirra tækifæra sem CCP nýti til að styrkja tengslin við viðskiptavini sína – fólk sem er tilbúið að ferðast yfir hálfan hnöttinn til að ræða geimskip í þrjá daga.
Langtímasýn Hilmars fyrir CCP snýst ekki aðeins um nýja leiki og tækniframfarir heldur einnig um að þróa og reka hagkerfi í sýndarheimum sem virka eins og raunveruleg efnahagskerfi. Hann lýsir miklum áhuga sínum á því sem hann kallar hagkerfisbrölt, bæði innan EVE Online og í nýjum leik sem byggist á rafmynt. „Ég sé mikla framtíð í því að þróa opið tölvuleikjahagkerfi,“ segir hann.
Þrátt fyrir ný verkefni er EVE Online enn burðarásinn í rekstri CCP. Leikurinn er langstærsti hluti leikjatekna fyrirtækisins, þó nýir leikir eins og EVE Galaxy Conquest, EVE Vanguard og EVE Frontier séu annaðhvort nýkomnir á markað eða í þróun. Hilmar segir þó ekki að fyrirtækið sé of háð EVE Online. Þvert á móti sé leikurinn „traustur grunnur undir alla starfsemina“ og CCP hafi áratuga reynslu af að lesa úr gögnum og hegðun spilara. „Við sjáum strax þegar fólk er að fara að hætta áskrift – og getum brugðist hratt við.“
Sterk tengsl við notendur skipta miklu máli, að hans sögn. Leikurinn hafi verið í gangi í yfir tuttugu ár og margir spilarar fylgt honum frá upphafi. „Við erum með þúsundir spilara sem hafa spilað EVE í tuttugu og tvö ár,“ segir Hilmar. Samt sem áður sjá þeir árlega nýliðun í samfélaginu. Hann lítur því á EVE Online ekki sem áhættu heldur sem burðarás sem ný verkefni geti byggt ofan á.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.