PCC BakkiSilicon hf. (PCC) hefur kært innflutning á kísilmálmi frá Kína til fjármála- og efnahagsráðuneytisins og krefst viðskiptaverndarráðstafana. Félagið segir innflutning á verulegu undirverði hafi leitt til alvarlegs samkeppnishalla, lægra söluverðs og rekstraróvissu sem setji framtíð 120 starfa og 30 milljarða fjárfestingu í uppnám.
PCC rekur kísilmálmverksmiðju við Bakka á Húsavík, þar sem framleiddur er kísilmálmur. Stærsti eigandi er þýska fyrirtækið PCC SE í Þýskalandi með 65% eignarhlut en 35% eru í eigu innlendra lífeyrissjóða og Íslandsbanka.
Í kærunni, sem svo er kölluð í skjölunum, dagsett 8. apríl 2025 og Morgunblaðið hefur undir höndum, segir PCC að kínverskir framleiðendur selji kísilmálm til Evrópu, þar á meðal Íslands, á verði sem liggi langt undir raunverulegum framleiðslukostnaði. Með slíkum undirboðum, sem styrkt séu af ríkisaðstoð kínverskra stjórnvalda, sé verið að útrýma heilbrigðri samkeppni.
PCC bendir á að kísilmálmur sé einkum notaður í álframleiðslu, hann sé eitt algengasta íblöndunarefni í framleiðslu á áli og því mikið notaður hér á landi. Framleiðsla PCC fer nær öll í útflutning, einkum til stórra álframleiðenda í Þýskalandi. Innfluttur kísilmálmur frá Kína er hins vegar mikið notaður í álframleiðslu hér á landi og hefur PCC ekki getað keppt við það verð sem þar býðst. PCC bendir í kærunni á að íslenskur iðnaður standi höllum fæti gagnvart keppinautum í Kína sem njóta ríkisstuðnings og hafi aðgang að mun lægra orkuverði.
Í kærunni kemur einnig fram að Ísland hafi ekki svo vitað sé áður gripið til verndarráðstafana af þessu tagi, en að nú sé það tímabært, enda sé kísilmálmur mikilvægt hráefni í orkuskiptum og grænni tækni. PCC telur að með því að setja undirboðstolla á slíkan innflutning væri verið að verja virðiskeðju og orkunýtingu sem samræmist stefnu stjórnvalda í loftslags- og atvinnumálum.
PCC bendir á að Evrópusambandið hafi þegar brugðist við með verndartollum á kísilmálm frá Kína, að meðaltali 16,3-16,8%, samkvæmt reglugerð ESB (EU 2022/1394). Tollarnir voru settir á eftir ítarlega rannsókn framkvæmdastjórnar ESB sem staðfesti að undirboð hefðu skaðað evrópska framleiðendur. Sambærilegar aðgerðir hafi verið innleiddar í Bandaríkjunum, þar sem mjög háir verndartollar, um 140%, hafi verið við lýði í rúma tvo áratugi.
Í kærunni segir að íslensk stjórnvöld hafi í gegnum tíðina lýst vilja til að styðja við orkufrekan grænan iðnað og að bygging verksmiðjunnar hafi verið fjárfesting í þeirri framtíðarsýn. PCC fullyrðir að aðgerðaleysi stjórnvalda sendi neikvæð skilaboð til erlendra fjárfesta sem treysta á samkeppnishæf rekstrarskilyrði hér á landi.
Morgunblaðið leitaði til Kára Marísar Guðmundssonar forstjóra PCC sem bendir á:
„Það væri fordæmalaust að Ísland gerði ekkert við sambærilegum aðstæðum.“
Kári telur Ísland vera í fullum rétti til að beita verndarráðstöfunum samkvæmt íslenskum lögum þrátt fyrir fríverslunarsamning við Kína, og bætir við:
„Ef Ísland ætlar að standa við orð sín um sjálfbæran iðnað, orkusókn og verðmætasköpun innanlands, þá hlýtur vernd gegn ósanngjarnri samkeppni að vera hluti af þeirri mynd.“
PCC fer fram á að lagðir verði á innflutningstollar, tímabundin vernd eða aðrar takmarkanir á allan innflutning á kísilmálmi frá Kína.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar.
Til þess að lesa hana þarftu að skrá þig inn.
Ertu ekki með notendaaðgang? Fara í nýskráningu.
Þú ert innskráð(ur) sem ... en ert ekki með áskrift.
Aðgangur að þessari frétt í fullri lengd krefst áskriftar að Morgunblaðinu, rafræns aðgangs á borð við vikupassa eða séráskriftar að viðkomandi efnisflokki á mbl.is.