Missir líklega af öllu tímabilinu

Tyrese Haliburton liggur sárþjáður eftir að hafa slitið hásin í …
Tyrese Haliburton liggur sárþjáður eftir að hafa slitið hásin í fyrrinótt. AFP/Justin Ford

Tyrese Haliburton, stórstjarna Indiana Pacers í NBA-deildinni í körfuknattleik, gekkst í gær undir skurðaðgerð eftir að hafa slitið hásin á hægri fæti í oddaleik úrslitaeinvígisins gegn Oklahoma City Thunder í fyrrinótt.

Haliburton hafði byrjað leikinn stórkostlega en féll sárþjáður við eftir aðeins nokkrar mínútur. Oklahoma City nýtti sér áfall Indiana og varð NBA-meistari í fyrsta sinn.

Hann varð þar með þriðja stjarnan í NBA-deildinni sem sleit hásin í úrslitakeppninni eftir að Jayson Tatum hjá Boston Celtics og Damian Lillard hjá Milwaukee Bucks urðu sömu örlögum að bráð.

Tekur það um tíu mánuði að jafna sig á meiðslum sem þessum og því gætu allir þrír misst af öllu næsta tímabili en binda hins vegar vonir við að ná að snúa aftur undir lok þess.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
OSZAR »