Tyrese Haliburton, stórstjarna Indiana Pacers í NBA-deildinni í körfuknattleik, gekkst í gær undir skurðaðgerð eftir að hafa slitið hásin á hægri fæti í oddaleik úrslitaeinvígisins gegn Oklahoma City Thunder í fyrrinótt.
Haliburton hafði byrjað leikinn stórkostlega en féll sárþjáður við eftir aðeins nokkrar mínútur. Oklahoma City nýtti sér áfall Indiana og varð NBA-meistari í fyrsta sinn.
Hann varð þar með þriðja stjarnan í NBA-deildinni sem sleit hásin í úrslitakeppninni eftir að Jayson Tatum hjá Boston Celtics og Damian Lillard hjá Milwaukee Bucks urðu sömu örlögum að bráð.
Tekur það um tíu mánuði að jafna sig á meiðslum sem þessum og því gætu allir þrír misst af öllu næsta tímabili en binda hins vegar vonir við að ná að snúa aftur undir lok þess.