Fjórtán ára samherji Elvars sló met

Paris Klontzaris er aðeins 14 ára.
Paris Klontzaris er aðeins 14 ára. Ljósmynd/FIBA

Hinn 14 ára gamli Paris Klontzaris varð á laugardag yngsti leikmaðurinn í sögu grísku úrvalsdeildarinnar í körfubolta er hann kom inn á í stutta stund fyrir Maroussi er liðið mátti þola tap fyrir Aris, 114:109, á útivelli.

Elvar Már Friðriksson var einn besti maður Maroussi, skoraði 13 stig, gaf 17 stoðsendingar og tók fjögur fráköst.

Klontzaris lék í tæpa mínútu á lokakaflanum en á þeim tíma náði hann í tvær villur, skoraði eitt stig og tók eitt frákast.

Í grein á vefsíðu FIBA, Alþjóðlega körfuknattleikssambandsins, er fjallað um Klontzaris og tekið fram að leikmenn og stuðningsmenn andstæðinganna hafi klappað fyrir táningnum.

Í greininni er augnablikið borið saman við þegar hinn 14 ára gamli Ricky Rubio varð yngsti leikmaður spænsku deildarinnar frá upphafi og þegar Juste Jocyte lék sinn fyrsta landsleik fyrir Litháen, 13 ára gömul.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
OSZAR »