„Þetta er þvílík ánægja og gleði,“ sagði Baldur Þór Ragnarsson í samtali við mbl.is eftir að hann gerði Stjörnuna að Íslandsmeistara karla í körfubolta með sigri á Tindastóli í oddaleik í Síkinu í kvöld.
„Það var mikill karakter. Þetta var liðsheild frá a til ö. Allir trúðu og voru til í þetta,“ sagði Baldur um það sem skapaði sigurinn á Íslandsmótinu.
Mikil spenna var á lokakaflanum. „Ég var inni í leiknum. Mér leið ekki vel en ekki illa heldur. Ég sá að þeir voru farnir að efast. Það var meiri sókn í okkur. Manni líður aldrei alveg vel á móti þessu liði,“ sagði Baldur, sem er Íslandsmeistari í fyrsta skipti.
„Það þýðir mikið fyrir mig að vinna þetta. Ég vildi það ógeðslega mikið og ég er þvílíkt glaður. Ég elska Skagafjörðinn og Síkið,“ sagði Baldur, sem þjálfaði Tindastól frá 2019 til 2022.