Tindastóll er einum sigri frá sínum öðrum Íslandsmeistaratitli karla í körfubolta eftir 110:97-heimasigur á Stjörnunni í þriðja leik úrslitanna í kvöld. Er staðan í einvíginu 2:1 og fá Skagfirðingar tækifæri til að tryggja sér titilinn í Garðabænum á sunnudagskvöld.
Fyrstu tveir leikhlutarnir þróuðust svipað. Tindastóll náði snemma litlu forskoti og var staðan t.a.m. 14:10 þegar fjórar mínútur voru liðnar. Heimamenn náðu svo 21:12 forskoti þegar skammt var eftir af fyrri hálfleik.
Stjörnumenn voru hins vegar sterkari í lok leikhlutans og tókst að minnka muninn með þremur þriggja stiga körfum á lokakaflanum. Var staðan því 27:24, Tindastóli í vil, þegar fyrsti leikhluti var allur.
Annar leikhluti var svipaður. Tindastóll var ávallt skrefinu á undan en illa gekk að hrista Stjörnumenn af sér. Að sama skapi náði Stjarnan aldrei að jafna. Liðin skiptust á körfum og Tindastóll hélt litlu forskoti. Var fimm stiga munur í hálfleik, 63:58.
Hilmar Smári Henningsson átti magnaðan fyrsta leikhluta fyrir Stjörnuna og skoraði 20 stig. Sigtryggur Arnar Björnsson gerði 17 fyrir Tindastól.
Tindastóll byrjaði seinni hálfleikinn betur og náði níu stiga forskoti í stöðunni 72:63. Sem fyrr gafst Stjarnan ekki upp og Jase Febres skoraði fimm stig í röð á stuttum tíma eftir að Adomas Drungilas fékk óíþróttamannslega villu fyrir olnbogaskot.
Stjörnumenn nýttu sér það og munaði einu stigi þegar þrjár mínútur voru eftir af þriðja leikhluta, 75:74. Hlynur Bæringsson kom Stjörnunni svo yfir í fyrsta skipti, 84:83, með þriggja stiga körfu. Sadio Doucouré jafnaði með víti hinum megin og var staðan 84:84 fyrir fjórða leikhlutann.
Stjarnan komst fjórum stigum yfir í upphafi hans, 88:84. Tindastóll svaraði og Drungilas kom Tindastóli í 91:90 þegar fjórði leikhluti var tæplega hálfnaður. Náði Tindastóll völdum á leiknum eftir það og sigldi að lokum sigrinum í höfn.
Gangur leiksins:: 8:5, 16:12, 21:14, 27:24, 34:33, 46:39, 53:48, 63:58, 72:63, 74:67, 78:76, 84:84, 86:88, 93:90, 101:92, 110:97.
Tindastóll: Dedrick Deon Basile 24/6 fráköst/10 stoðsendingar, Giannis Agravanis 20/4 fráköst, Sadio Doucoure 20/13 fráköst, Sigtryggur Arnar Björnsson 17/4 fráköst, Adomas Drungilas 13/7 fráköst, Davis Geks 13, Pétur Rúnar Birgisson 3.
Fráköst: 25 í vörn, 10 í sókn.
Stjarnan: Hilmar Smári Henningsson 22, Jase Febres 20/11 fráköst, Ægir Þór Steinarsson 15/7 stoðsendingar, Orri Gunnarsson 12, Júlíus Orri Ágústsson 11/4 fráköst, Hlynur Elías Bæringsson 9/5 fráköst, Shaquille Rombley 8/4 fráköst.
Fráköst: 24 í vörn, 8 í sókn.
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Davíð Kristján Hreiðarsson, Gunnlaugur Briem.
Áhorfendur: 1500