Benedikt Guðmundsson þjálfari karlaliðs Tindastóls í körfubolta var kátur eftir 110:97-sigur liðsins á Stjörnunni í þriðja leik úrslitaeinvígisins á Íslandsmótinu. Tindastóll þarf aðeins einn sigur í viðbót til að verða meistari í annað sinn.
Tindastóll var yfir nær allan tímann en Stjarnan komst síðan yfir í þriðja leikhluta og var yfir framan af í þeim fjórða.
„Það var ekki þægileg tilfinning. Við vorum búnir að leiða allan leikinn. Það var samt hellingur eftir og nægur tími. Fjögur stig er engin munur og það er bara áfram gakk. Við höfum séð það svartara en þetta.
Við fórum loksins að ná stoppum í fjórða leikhluta. Við réðum ekkert við þá. Þeir eru ógeðslega góðir. Hilmar var óstöðvandi og er orðinn geggjaður leikmaður. Við þurfum að hafa mikið fyrir honum, enda orðinn svikamylla.
Við höfum líka verið að vesenast með Ægi leik eftir leik. Þetta eru algjörir kóngar í þessari deild. Stundum tekst að hægja á þeim og stundum ekki,“ sagði Benedikt.
Lætin í Síkinu eru engu lík þegar úrslitakeppnin er annars vegnar og Benedikt viðurkenndi að það þýddi lítið að öskra á sína menn, þar sem þeir heyra lítið í honum.
„Raddböndin voru léleg fyrir þennan leik. Maður er með flensu eins og flestir hérna á Króknum. Það þýðir ekkert að kalla eitt né neitt. Maður verður að nota leikhléin og jafnvel þá heyrist varla í manni. Það er mikilvægt að undirbúa vel fyrir leik.“
Benedikt ræddi við ofanritaðan í viðtali fyrir Morgunblaðið þegar hann tók við Tindastóli og sagði Síkið eins og Anfield í Liverpool, í sérflokki.
„Anfield og Síkið standa upp úr þegar kemur að íþróttum. Ég var nokkuð vissum það áður en ég kom hingað og ég get staðfest það núna,“ sagði þjálfarinn.
Tindastóll fékk stóran skell í öðrum leik í Garðabæ og þurfa Skagfirðingar að spila mikið mun betur til að eiga möguleika á að verða meistari í fjórða leik á sunnudag.
„Við vorum miklu lakari aðilinn í síðasta leik. Þessi frammistaða var miklu betri en við þurfum að vera enn betri í næsta leik og vera einbeittir. Við þurfum sömu orku og einbeitingu og í þessum leik. Við vorum ekki að missa okkur yfir hlutum sem við stjórnum ekki.
Við þurfum að taka það góða yfir. Það er eitt að gera það í Síkinu og spila vel hér og annað í Garðabænum. Það er miklu erfiðara. Við þurfum að gera betur í einn og einn vörn í næsta leik,“ sagði hann.
Gríski leikmaðurinn Dimitrios Agravanis lék ekki með Tindastóli í kvöld vegna leikmanns sem hann hlaut eftir leikinn í Garðabæ. Hann reifst m.a. við Benedikt og lét dómaranna heyra það.
„Það er búið að vera nóg að gera eftir þann leik. Við þurftum að koma liðinu saman og ræða við menn. Við erum allir komnir á gott ról núna. Þetta er búið að reyna á, enda mjög vont í Garðabænum um daginn.
Við lærðum af þessu og sýndum í kvöld að það er bak við okkur. Við þurfum að halda áfram. Þetta er langt frá því að vera búið,“ sagði Benedikt.