Njarðvík tapaði með minnsta mögulega mun í framlengdum oddaleik gegn Haukum um Íslandsmeistaratitil kvenna í körfubolta á Ásvöllum í kvöld, 92:91.
Njarðvík endar tímabilið sem bikarmeistari en liðið endaði í öðru sæti í deildinni og í úrslitakeppninni.
Einar Árni Jóhannsson, þjálfari Njarðvíkur, var að vonum svekktur með sárt tap í kvöld þó að hann hafi á sama tíma verið ákaflega stoltur af baráttunni sem liðið hans sýndi eftir að hafa lent 2:0 undir í einvíginu en komið til baka og knúið einvígið í hreinan oddaleik um titilinn.
Spurður út í leikinn og tímabilið í heild sinni sagði Einar Árni:
„Ég er fyrst og fremst stoltur af liðinu mínu. Okkur var ekki spáð velgengni. Við fækkuðum erlendum ígildum og misstum tvo landsliðsmenn fyrir tímabilið. Þessar ungu stelpur okkar. Ég er bara svo montinn fyrir hönd Njarðvíkur af árangrinum sem við höfum náð með þessa ungu íslensku leikmenn sem við eigum innan okkar raða.
Yngri flokka þjálfararnir okkar Agnar Már Gunnarsson, Bylgja Sverrisdóttir, Kristjana Jónsdóttir, Eygló Alexandersdóttir og Bruno Richotti sem eru búnir að vera að þjálfa þessar stelpur eiga hrós og heiður skilið.
Framtíðin er þessara ungu leikmanna. Við Halldór formaður höfum talað um að við séum bara rétt að byrja vegferð sem er með stærri markmið. Þetta er mikil reynsla fyrir ungt lið í kvöld. Að sjá leikmenn eins og Kristu Gló, Huldu Maríu, Láru Ösp, Önnu Lilju, Söru Björk.
Þvílíkt sem þessir leikmenn hafa vaxið á þessu tímabili og þær hafa stigið upp og tekið risastóra ábyrgð. Sjáum eins og Huldu og Kristu í kvöld. Þær taka svakaleg skot hérna í kvöld. En auðvitað er þetta alveg hrikalega sárt að tapa þessu svona.
Á sama tíma langar mig að hrósa Haukum. Þær missa þetta í framlengingu. Við byrjum síðan betur í framlengingunni og það hefði verið mjög auðvelt að brotna. Tinna stígur upp hjá þeim í framlengingunni, vel gert hjá þeim.“
En í ljósi þeirra væntinga sem voru gerðar til Njarðvíkurliðsins þá hlýtur þetta tímabil að teljast mjög árangursríkt í ljósi þess að liðið sækir tvær medalíur, verður bikarmeistari og lendir í öðru sæti í deildinni. Það spáði þessu enginn fyrir tímabilið.
„Það er alveg rétt. Ég væri að ljúga ef ég segði að við hefðum stefnt á titla þegar við Óli tókum við þessu verkefni. Að sjálfsögðu ætluðum við að gera allt sem við gætum til að vera með í baráttunni.
Þetta er sterk deild. Haukarnir eru frábærir. Keflavík líka. Allir þessir sérfræðingar voru að tala um Val, Stjörnuna og Grindavík. Ég held að við höfum alveg sýnt þessum sérfræðingum að það er mikið í okkar lið spunnið. Vissulega breyttum við liðinu í janúar. Það var góð breyting og jákvæð.
En ef við drögum þetta saman þá eigum við eftir að sjá fullt af jákvæðum hlutum. Við erum búin að veðja á framtíðina í okkar stelpum. Við ákváðum að veðja á Huldu, Láru Ösp, Önnu Lilju, Söru Björk, Kristu Gló og allar þessar stelpur.
Þær svöruðu kallinu okkar og traustinu frábærlega. Það er eitthvað sem við tökum með okkur inn í framtíðina og eigum eftir að fá það margfalt til baka frá þessum leikmönnum.
Síðan verður að hrósa atvinnumönnunum okkar, sem eru frábærir liðsmenn. Liðsheildin er frábær. Ég fer hrikalega stoltur frá þessum vetri með þessum leikmönnum þrátt fyrir að við séum sorgmædd með að hafa ekki unnið titilinn.“
Það hefði líka verið ansi auðvelt fyrir Njarðvík að brotna hérna í fjórða leikhluta þegar liðið reynir ítrekað að saxa á forskot Hauka sem ná alltaf að svara og jafnvel auka forskotið. Á endanum tekst þetta samt og þið farið í framlengingu og tapið með minnsta mun. Þetta hlýtur allt að fara í reynslubankann fyrir næsta tímabil. Því liggur beinast við að spyrja hvort allir þessir leikmenn verði áfram í Njarðvíkurtreyjunni á næsta tímabili?
„Ég get alveg sagt það hérna að við erum búin að festa nokkra leikmenn. Eðlilega höfum við ekki spáð í því undanfarið á meðan við vorum í úrslitakeppninni. Við viljum stöðugleikann og viljum halda í hann sem mest.
Nú fer sú vinna í hönd að klára samninga við alla. Þessir leikmenn eru allir sérfræðingar á sínu sviði og við finnum út úr því hratt og örugglega. En það eru geggjaðar fréttir fram undan fyrir liðið okkar.“
Er langt þangað til þú munt kalla liðið aftur saman og byrja að undirbúa næsta tímabil?
„Núna erum við bara að fara sleikja sárin og safna orku. Það er lokahóf hjá okkur á föstudaginn. Við ætlum að eiga góða stund saman þar og fagna mjög góðum vetri. En það er ekkert langt í það að við komum saman aftur og förum að huga að sumrinu.
Það eru forréttindi að þjálfa þetta lið. Þetta eru ofboðslega duglegir og metnaðarfullir leikmenn. Ég hlakka mikið til að sjá næstu skref í þeirra ferli,“ sagði Einar Árni í samtali við mbl.is.