Spennan heldur áfram - Stjarnan jafnaði

Sadio Doucoure úr Tindastóli og Shaquille Rombley úr Stjörnunni í …
Sadio Doucoure úr Tindastóli og Shaquille Rombley úr Stjörnunni í hörðum slag undir körfunni í kvöld. mbl.is/Birta Margrét

,Stjarnan vann öruggan sigur þegar uppi var staðið í öðrum leiknum gegn Tindastóli í úrslitaeinvígi þeirra um Íslandsmeistaratitil karla í körfuknattleik í Garðabænum í kvöld. 

Stjarnan sigraði 103:74 og staðan er nú 1:1. Leikirnir í rimmunni verða því alla vega fjórir og kæmi ekki á óvart ef þeir yrðu fimm en vinna þarf þrjá leikir til að verða meistari. 

Tindastóll hafði betur í fyrsta leik, 93:90, og á heimaleikjarétt ef til oddaleiks kemur. 

Íþróttaunnendur hafa vanist því að spennan og dramatíkin séu alls ráðandi í úrslitakeppninni í körfunni ár eftir ár. Í kvöld munaði aðeins stigi að loknum fyrri hálfleik en Stjarnan var stigi yfir. Leiðir skildu í þriðja leikhluta og þá tókst Tindastóli ekki að svara fyrir sig eins og þeim hafði tekist í fyrri hálfleik þegar þeir söxuðu niður tíu stiga forskot Stjörnunnar. 

Landsliðsmaðurinn Ægir Þór Steinarsson átti þvílíkan stórleik fyrir Stjörnuna. Skoraði 37 stig, gaf 7 stoðsendingar, stal boltanum tvisvar og tók 7 fráköst. Ekki á hverjum degi sem maður sér slíkt hjá leikmanni í úrslitarimmunni. Gleymum því ekki að Ægir er framúrskarandi varnarmaður og yfirleitt álitinn dýrmætari á þeim hluta vallarins. 

Einnig er skemmtilegt að sjá til Hilmars Smára Henningssonar hjá Stjörnunni. Hann er augljóslega tilbúinn að taka af skarið og bera mikla ábyrgð. Hann hefur getuna og reynsluna. Orri Gunnarsson var einnig góður en þessir leikmenn verða í baráttu um sæti í EM hópnum sem fer til Póllands síð sumars. 

Sóknin gekk illa hjá Tindastóli og skotnýtingin segir sína sögu. Liðið var með 40% skotnýtingu og þá er erfitt að leggja Stjörnuna að velli á útivelli. Sadio Doucoure var stigahæstur þeirra með 18 stig. 

Í síðari hálfleik misstu leikmenn Tindastóls einbeitinguna og fóru að eyða kröftum í annað en það sem þeir gera best. Grikkinn Dimitrios Agravanis og Sigtryggur Arnar Björnsson voru báðir sendir í bað í síðari hálfleik þegar mótlætið jókst og Stjarnan bætti við forskotið. 

Lið Stjörnunnar: Kristján Ingólfsson, Hlynur Bæringsson (F), Hilmar Henningsson, Jase Febres, Ægir Steinarsson, Pétur Reimarsson, Bjarni Jónsson, Júlíus Ágústsson, Viktor Lúðvíksson, Shaquille Rombley, Orri Gunnarsson.

Lið Tindastóls: Sadio Doucoure, Axel Arnarsson, Derick Basile, Sigtryggur Arnar Björnsson, Pétur Birgisson, Giannis Agravanis, Davis Geks, Dimitrios Agravanis, Adomas Drungilas, Sigurður Jónsson, Ragnar Ágústsson, Hannes Másson. 

Gangur leiksins:: 6:5, 8:10, 13:15, 20:15, 22:15, 30:20, 33:32, 35:34, 44:38, 51:43, 55:45, 61:48, 75:53, 87:61, 96:67, 103:74.

Stjarnan: Ægir Þór Steinarsson 37/7 fráköst/7 stoðsendingar, Shaquille Rombley 17/8 fráköst, Hilmar Smári Henningsson 16/6 fráköst, Orri Gunnarsson 14, Júlíus Orri Ágústsson 9, Jase Febres 8/15 fráköst, Hlynur Elías Bæringsson 2.

Fráköst: 30 í vörn, 11 í sókn.

Tindastóll: Sadio Doucoure 18/7 fráköst, Giannis Agravanis 17/5 fráköst, Dedrick Deon Basile 16/5 fráköst/6 stoðsendingar, Davis Geks 8, Pétur Rúnar Birgisson 7, Sigtryggur Arnar Björnsson 3, Axel Arnarsson 3, Ragnar Ágústsson 2.

Fráköst: 22 í vörn, 4 í sókn.

Dómarar: Kristinn Óskarsson, Davíð Kristján Hreiðarsson, Gunnlaugur Briem.

Áhorfendur: 1499

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Stjarnan 103:74 Tindastóll opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
OSZAR »