Aron fljótur að finna sér nýja vinnu

„Ég er byrjaður að vinna hjá fyrirtæki sem heitir Aparta,“ sagði handboltamaðurinn og landsliðsfyrirliðinn fyrrverandi Aron Pálmarsson í Dagmálum.

Aron, sem er 34 ára gamall, lagði skóna á hilluna á dögunum eftir afar farsælan feril þar sem hann varð þrettán sinnum landsmeistari í Þýskalandi, Ungverjalandi, á Spáni og á Íslandi en hann lék alls 184 A-landsleiki og skoraði í þeim 694 mörk.

Hugsað fyrir alla

Aron hóf störf hjá Aparta.com á dögunum en hann er fluttur heim til Íslands á nýjan leik eftir að hafa leikið með Veszprém frá því í október á síðasta ári þar sem hann varð ungverskur meistari á dögunum.

„Þetta er sjóður sem býður fólki upp á það að við fjárfestum í eignunum þeirra,“ sagði Aron.

„Við kaupum okkur inn í fasteignina og eigum hana með þér. Þú færð greidda eingreiðslu frá okkur og þetta er í raun hugsað fyrir alla. Mér bauðst að koma inn í þetta í janúar og leist strax mjög vel á þetta.

Þetta er frábær þjónusta að mínu mati og við erum búnir að opna fyrir umsóknir. Markmiðið er að fjárfesta í fyrstu eignunum á allra næstu mánuðum,“ sagði Aron.

Stórsniðugt dæmi

„Þetta er norskt félag sem byrjaði þetta og þeir hafa núna opnað útibú í bæði Svíþjóð og Danmörku. Mér fannst þetta stórsniðugt dæmi og þetta getur hjálpað breiðum hópi fólks, bæði ungu fólki og eldra fólki líka sem situr kannski á miklum fjárhæðum í sínum eignum en gefst nú tækifæri til þess að losa um einhvern pening.

Ég er ógeðslega spenntur fyrir þessu og þetta hjálpaði mér. Ég vildi hafa eitthvað að gera þegar ég kæmi heim því ég vildi ekki lenda á neinum vegg. Mér finnst þetta mjög spennandi og það er gaman að taka þátt í svona frumkvöðladæmi,“ sagði Aron meðal annars.

Viðtalið við Aron í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á hlekkinn hér fyrir ofan.

Aron Pálmarsson.
Aron Pálmarsson. mbl.is/Eyþór
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
OSZAR »