Rúnar Kárason, leikmaður nýkrýndra Íslandsmeistara Fram í handbolta, var að vonum ánægður með fyrsta Íslandsmeistaratitil Fram síðan 2013 þegar lið hans vann Val 3:0 í úrslitaeinvígi liðanna.
Rúnar kom til Fram fyrir síðasta tímabil, þá Íslandsmeistari frá ÍBV. Hann hafði þetta að segja spurður út í þá tilfinningu að vera orðinn Íslandsmeistari með uppeldisfélagi sínu á nýjan leik:
„Ógeðslega glaður og léttur. Við náðum öllum okkar markmiðum. Þetta var ótrúlega mikil erfiðisvinna. Við byrjuðum þennan undirbúning 15. apríl árið 2024 eftir tap á móti Val í átta liða úrslitum. Við erum komnir alla þessa leið og að klára þetta í þremur leikjum sem allir voru svo gríðarlega erfiðir er bara stórkostlegt.
Allt hrós til Valsmanna. Þó svo að 3:0 virðist vera sannfærandi sigur í einvíginu þá voru þessir leikir hnífjafnir og alltaf var þetta í járnum. Við höfum svakalega fyrir þessu en erum betra liðið þegar uppi er staðið.“
Ef við förum bara inn í síðasta tímabil. Þá voru háværar raddir um það að þú værir leiður og værir að spila langt undir getu og vildir jafnvel ekki vera í Fram. Þessi vegferð síðan þá, þar sem þú stendur uppi sem Íslands- og bikarmeistari með Fram. Það hlýtur að vera ágætis svar við þessum neikvæðu röddum, ekki satt?
„Jú heldur betur. Ég var alveg leiður því það var erfitt að flytja frá Vestmannaeyjum. Síðan snérum við við blaðinu og fórum að vinna vinnuna og þetta er uppskeran.“
En Rúnar Kárason er hvergi nærri hættur, er það nokkuð?
„Ég verð áfram hjá Fram og nú hugsum við bara alltaf eitt ár í einu,“ sagði Rúnar Kárason í samtali við mbl.is þegar hann hljóp upp á verðlaunapallinn til að taka við Íslandsmeistaratitlinum.