Fram er Íslandsmeistari karla í handbolta í ellefta skipti og í fyrsta skipti frá árinu 2013 eftir sigur á Val, 28:27, í þriðja leik liðanna í úrslitum Íslandsmótsins á Hlíðarenda í kvöld. Fram vann einvígið 3:0 og er tvöfaldur meistari en liðið varð bikarmeistari í mars.
Liðin skiptust á að skora á fyrstu mínútunum. Valur var með 4:3 forskot þegar tíu mínútur voru liðnar og komst tveimur mörkum yfir í fyrsta skipti í stöðunni 5:3 skömmu síðar. Framarar voru snöggir að svara og var staðan 5:5 þegar fyrri hálfleikur var tæplega hálfnaður.
Jafnræðið hélt áfram í fyrri hálfleik og var staðan 9:9 þegar rúmar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik.
Framarar komust tveimur mörkum yfir skömmu síðar og voru gestirnir yfir í hálfleik, 15:13. Valur skoraði tvö fyrstu mörk seinni hálfleiks og jafnaði í 15:15.
Fram var hins vegar áfram skrefinu á undan næstu mínútur og náði aftur tveggja marka forystu í stöðunni 18:16. Valur gafst ekki upp sem fyrr og Ísak Gústafsson jafnaði í 18:18 þegar tíu mínútur voru búnar af seinni hálfleik.
Valur var með eins marks forskot, 21:20, þegar seinni hálfleikur var hálfnaður. Þá kom góður kafli hjá Fram sem breytti stöðunni í 23:21 sér í vil. Munaði einu marki þegar tæpar tíu mínútur voru eftir, 25:24. Bjarni í Selvindi jafnaði svo í 25:25 þegar sjö mínútur voru eftir.
Báðum liðum gekk illa að skora næstu mínútur og var staðan 26:26 þegar tæpar tvær mínútur voru eftir. Þá skoraði Theodór Sigurðsson 27. mark Fram og breytti stöðunni í 27:26. Bjarni í Selvindi svaraði hinum megin þegar 30 sekúndur voru eftir, 27:27.
Framarar lögðu þá af stað í sókn, galopnuðu vörn Valsara og Þorsteinn Gauti Hjálmarsson skoraði, 28:27, og tryggði Fram Íslandsmeistaratitilinn.