Alþjóða skautasambandið, ISU, hefur gefið út lista yfir íþróttafólk frá Rússlandi og Hvíta-Rússlandi sem getur fengið keppnisrétt á vetrarólympíuleikunum sem fram fara á Ítalíu í febrúar 2026.
Vegna innrásar Rússlands í Úkraínu í febrúar 2022 og aðildar Hvíta-Rússlands að henni hafa báðar þjóðir verið í banni frá keppni á alþjóðlegum mótum í skautaíþróttum, eins og í flestum öðrum greinum.
Samkvæmt tilmælum Alþjóða ólympíunefndarinnar, IOC, getur íþróttafólk frá þessum löndum keppt sem hlutlausir undir fána nefndarinnar ef það uppfyllir ákvðein skilyrði. Það má ekki hafa nein tengsl við hernaðar- eða öryggisstofnanir Rússlands eða Hvíta-Rússlands og hafi ekki stutt opinberlega innrásina í Úkraínu.
Á umræddum lista eru 22 Rússar og 13 Hvít-Rússar sem ýmist keppa á listskautum eða í skautahlaupi. Þetta íþróttafólk hefur þar með fengið heimild til þátttöku í undankeppnum fyrir vetrarólympíuleikana 2026.
Tekið er fram að athugun á keppendum hafi falið í sér ítarlega greiningu á opinberri framkomu og yfirlýsingum þeirra frá febrúar 2022 til dagsins í dag. Komi fram nýjar upplýsingar eigi keppendurnir á hættu að missa stöðu sína sem hlutlausir og mættu þá ekki taka þátt í viðkomandi undankeppnum.