„Ég pældi ekkert í því að sigra“

Kristinn hljóp 43 hringi í hlaupinu um helgina.
Kristinn hljóp 43 hringi í hlaupinu um helgina. Ljósmynd/Guðmundur Freyr Jónsson

„Ég pældi ekkert í því að sigra. Það var bara einn hringur í einu og borða. Það var bara markmiðið,“ segir Kristinn Gunnar Kristinsson en hann vann Bakgarðshlaup náttúruhlaupa í Öskjuhlið í nótt. 

Kristinn hljóp 43 hringi í hlaupinu sem hófst á laugardagsmorgun. Það gerir um 288 kílómetra. Kristinn og Mari Järsk voru tvö eftir þegar þau lögðu af stað í 43. hring en Mari snéri við skömmu eftir að lagt var af stað. 

Bakgarðshlaupið virkar þannig fyrir sig að á hverjum klukkutíma hlaupa keppendur 6,7 kílómetra hring. Hver hringur er ræstur út á heila tímanum og ef keppandi er kominn í mark áður en að næsti hringur byrjar má hann nota restina af tímanum til að hvílast og undirbúa sig fyrir næsta hring. 

Ef keppandinn nær ekki að klára hringinn á klukkutíma er hann fallinn úr keppni. Sá sem hleypur flesta hringi er sá eini sem klárar hlaupið og stendur uppi sem sigurvegari. Til þess að sigra þarf viðkomandi að klára hringinn einn. 

Vildi hlaupa í tæpa tvo sólarhringa

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Kristinn tekur þátt í Bakgarðshlaupinu heldur er hann frekar reyndur í þeim efnum. Oftast hefur hann stoppað eftir 100 kílómetra en tvívegis farið 200 kílómetra. Hann sló því sitt persónulega met í keppni helgarinnar sem hann segir að sé hans eina markmið með þátttöku í keppnishlaupum.

Markmið helgarinnar var því ekki að standa uppi sem sigurvegari heldur var markmiðið að hlaupa dag-nótt-dag-nótt, eða í tæpa tvo sólarhringa. 

„Ég komst mjög nálægt því núna. Það var byrjað að birta aðeins um morguninn þannig maður tekur þessu eins og þetta sé bara komið,“ segir Kristinn og hlær. 

Keppni lauk klukkan fjögur í nótt en þegar blaðamaður náði tali af Kristni eftir hádegi í dag hafði hann sofið í tæpar tvær klukkustundir frá því að keppni lauk. Hann segir að hann hafi náð að hvíla sig vel á milli hringja en að líkaminn sé enn að vinna á fullu sem geri það erfiðara að ná inn hvíld. 

„Kerfið er á fullu og þér líður bara illa. Ég er með óþreyju í löppunum og fékk smá bólgu í sköflunginn sem sængin mín var alltaf að fara í. Þetta er erfiður tími næstu tvo daga en vonandi verður þetta betra,“ segir Kristinn. Aðspurður segir hann að næstu dagar fari í að reyna að hvíla sig og næra. 

Frá Bakgarðshlaupinu um helgina. Rúmlega 200 keppendur voru skráðir til …
Frá Bakgarðshlaupinu um helgina. Rúmlega 200 keppendur voru skráðir til leiks. mbl.is/Birta

Sjö rétta matseðill í gegnum hlaupið

Kristinn lýsir því að allt hafi gengið upp eins og skyldi í þessu hlaupi. Næringin hafi verið lykilatriði og var hann með sjö rétta matseðil sem rúllaði í hverjum hring þar sem kolvetni voru í fyrirrúmi. 

Spurður hvernig það sé fyrir andlegu hliðina að hlaupa í þetta langan tíma segir hann að hann hafi ekki fundið fyrir mikilli vanlíðan í þessari keppni en að hann hafi fyrst og fremst verið leiður í hring sjö til níu, þegar hann átti meira en sólarhring eftir af hlaupinu. 

„Mér fannst það mjög skrýtið. Ég var bara leiður og leið illa inni í mér, en líkaminn var geðveikur. Ég skildi ekki af hverju ég var þarna, en samt langaði mig að vera þarna,“ segir Kristinn. 

Hann segir að þó að hlaupið sé einstaklingsíþrótt sé aðstoðarfólkið lykilatriði í þessum keppnum. Þau aðstoða keppendur við að næra sig og hvíla og gefa þeim hvatningaorð þegar þörf er á. 

Kristinn segir að á erfiðum stundum sé lykilatriði að vera með góða stuðningsmenn sem geta rifið mann upp úr dimmum dölum.

Spurður hvað sé næst á döfinni segir Kristinn að hann hafi ekki enn ákveðið það en að hann langi að einblína meira á maraþonhlaup á næstunni. Hann æfir með maraþonhópnum HHHC. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
OSZAR »