Þorri Jensson er Íslandsmeistari í snóker árið 2025 eftir sigur á Sigurði Kristjánssyni í úrslitaleiknum á Billiardbarnum í gær.
Þorri hóf leikinn af miklum krafti og komst í 3:0 áður en Sigurður minnkaði muninn en sá fyrsti sem vinnur níu ramma stendur uppi sem sigurvegari.
Þorri hélt yfirhöndinni framan af leiknum og komst í 7:2 en þá tók Sigurður við sér og minnkaði muninn í 7:6.
Í fjórtánda ramma var mikil spenna og hefði Sigurður getað jafnað metin með sigri en Þorri komst í 8:6.
Í 15. rammanum var síðan háspenna en Þorri kost í 54:1 en Sigurður neitaði að gefast upp og minnkaði muninn í 54:52. Þorri fékk hins vegar tækifæri til að vinna sem hann nýtti sér og hreinsaði borðið.
Þetta er fjórði Íslandsmeistaratitill Þorra.