Nani, fyrrverandi landsliðsmaður Portúgals í knattspyrnu, sagði að fótboltinn verði aldrei sá sami eftir að goðsagnirnar Cristiano Ronaldo og Lionel Messi leggja skóna á hilluna.
Bæði Ronaldo og Messi eru að nálgast endann á sínum ferli.
Ronaldo, sem varð fertugur á árinu, skrifaði undir nýjan tveggja ára samning hjá sádiarabíska félaginu Al-Nassr á dögunum. Messi, sem er 38 ára, leikur með Inter Miami í Bandaríkjunum.
Nani, sem er fyrrum liðsfélagi Ronaldo hjá portúgalska landsliðinu og Manchester United, vill að knattspyrnuáhugamenn njóti síðustu ára tvíeykisins.
„Við gagnrýnum Ronaldo og Messi mikið, en þegar þeir hætta mun fótboltinn aldrei verða sá sami,“ sagði Nani.
„Við verðum að njóta þess meðan þeir eru enn á vellinum,“ bætti Portúgalinn við.