Luis Enrique, stjóri Evrópumeistara Paris SG, dásamaði argentínska knattspyrnusnillinginn Lionel Messi á blaðamannafundi fyrir leik liðsins gegn Inter Miami í 16-liða úrslitum HM félagsliða sem hefst klukkan 16 í Atlanta í dag.
Lionel Messi er leikmaður Inter Miami en þeir félagarnir unnu saman hjá Barcelona í þrjú ár. Á fyrsta tímabili Enrique vann Barcelona þrennuna með Messi fremstan í flokki.
„Messi er að mínu mati án efa besti knattspyrnumaður sögunnar. Hann hefur verið á hátindi ferilsins í 10–15 ár og er viðmiðið fyrir besta leikmann sögunnar.
Ég hef séð Messi gera hluti á æfingum sem eru af annarri tegund, magnaða hluti. Satt best að segja þá er ekki hægt að stöðva Lionel Messi með einum leikmanni, ef við reynum það þá erum við dauðir,“ sagði Enrique.