Jürgen Klopp, fyrrverandi knattspyrnustjóri Liverpool í ensku úrvalsdeild karla, fór ófögrum orðum um HM félagsliða sem fer fram í Bandaríkjunum um þessar mundir.
Klopp talaði oft um of mikið álag á leikmönnum meðan hann stýrði Liverpool frá 2015-2024. Tvö ensk félög taka þátt í HM félagsliða, Chelsea og Manchester City, og ef þau komast í úrslitaleikinn er aðeins mánuður frá þeim leik og þar til enska úrvalsdeildin hefst.
„Þetta snýst allt um leikinn, ekki atburðina í kringum hann. Þess vegna er HM félagsliða versta hugmynd allra tíma, sem hefur verið framkvæmd.
Fólk sem hefur ekkert með daglegan rekstur fótboltaliða að gera er að koma með einhverjar hugmyndir.
Það eru ótrúlegar upphæðir í boði fyrir þátttöku, en þetta er samt ekki fyrir öll félög.
Á síðasta ári var Ameríkubikarinn og EM, í ár er það HM félagsliða og á næsta ári er HM sem þýðir að leikmenn eru ekki að fá neina almennilega hvíld, hvorki andlega né líkamlega,“ sagði Klopp við þýska dagblaðið Welt am Sonntag.