Þýska knattspyrnufélagið Stuttgart heiðrar Ásgeir Sigurvinsson, fyrrverandi fyrirliða sinn og stjörnuleikmann, á heimasíðu sinni í tilefni af sjötugsafmæli Eyjamannsins í dag, 8. maí.
Ásgeir lék með Stuttgart frá árinu 1982 til 1990, var fyrirliði liðsins um skeið og í lykilhlutverki þegar liðið varð þýskur meistari árið 1984. Hann var þá valinn besti leikmaður vestur-þýsku deildarinnar og sama ár hafnaði hann í 13. sæti í kjöri World Soccer á besta knattspyrnumanni heims.
Ítarlega er sagt frá Ásgeiri, hæfileikum hans og ferli og sagt meðal annars:
"Framúrskarandi tækni, nákvæmar sendingar, mikil hlaupageta, alltaf líklegur til að skora. Þessir hæfileikar Ásgeirs Sigurvinssonar glöddu stuðningsfólk Stuttgart og alla þýska knattspyrnuáhugamenn í meira en átta ár. Íslendingurinn er enn talinn einn besti leikstjórnandi sem hefur klæðst treyju Stuttgart."
Eftir að hafa rakið feril hans segir á heimasíðunni:
"Þrátt fyrir fjarlægðina hefur samband afmælisbarnsins við Stuttgart aldrei rofnað. Enn þann dag í dag fylgist Ásgeir Sigurvinsson náið með sínu VfB-liði úr norðrinu og er ávallt velkominn gestur á Cannstatter Wasen þar sem hann heldur góðu sambandi við fyrrverandi liðsfélaga sína.
Á þessum fimmtudegi fagnar Ásgeir Sigurvinsson sjötugsafmæli sínu. VfB sendir sínum fyrrverandi leikmanni þakkarkveðju og óskar honum alls hins besta á þessum sérstaka degi."