Stórt nafn bætist við þjálfarateymi Liverpool

Giovanni van Bronckhorst.
Giovanni van Bronckhorst. AFP/Andy Buchanan

Hollendingurinn Giovanni van Bronckhorst er nýr aðstoðarþjálfari enska meistaraliðsins Liverpool.

Fyrrverandi aðstoðarþjálfari Liverpool, John Heitinga, sem spilaði með Van Bronckhorst í hollenska landsliðinu, hætti hjá liðinu til að taka við Ajax á dögunum.

Van Bronckhorst gerði Feyenoord tvisvar sinnum að hollenskum bikarmeisturum, 2016 og 2018 og hollenskum meisturum 2017. Auk þess stýrði hann skoska liðinu Rangers og kom því alla leið í úrslitaleikinn í Evrópudeildinni 2021/22 og gerði liðið að bikarmeisturum á sama tímabili.

Hann var frábær leikmaður sjálfur en hann spilaði með Feyenoord, Rangers, Arsenal og Barcelona sem hann vann Meistaradeild Evrópu með. Van Bronckhorst var fyrirliði hollenska landsliðsins og spilaði í úrslitaleiknum á HM 2010, sem Holland tapaði gegn Spáni, en það var síðasti leikur hans á ferlinum.

Auk hans kemur Xavi Valero inn í þjálfarateymi Liverpool sem markmannsþjálfari en hann var síðast markmannsþjálfari West Ham. Fabian Otte og Claudio Taffarel eru hættir sem markmannsþjálfarar.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
OSZAR »