Ruud van Nistelrooy mun láta af störfum sem knattspyrnustjóri Leicester City eftir að síðasta leik liðsins á tímabilinu, gegn Bournemouth í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar á sunnudag, lýkur.
Sky Sports greinir frá því að viðræður um starfslokasamning muni hefjast í byrjun næstu viku og að þá muni Leicester strax hefjast handa við að finna arftaka Hollendingsins.
Russell Martin, sem síðast stýrði Southampton, og Danny Röhl sem er knattspyrnustjóri Sheffield Wednesday í ensku B-deildinni, eru efstir á óskalista félagsins.
Van Nistelrooy tók við starfi knattspyrnustjóra hjá Leicester í lok nóvember eftir að Steve Cooper var vikið frá störfum nokkrum dögum áður.
Þá var Leicester í 16. sæti úrvalsdeildarinnar en undir stjórn van Nistelrooys gekk liðinu afleitlega og féll niður í B-deildina þegar fimm umferðir voru enn óleiknar.