Michael Edwards, yfirmaður knattspyrnumála hjá Englandsmeisturum Liverpool, flaug til Bandaríkjanna í vikunni til þess að hitta eigendur félagsins.
Það er þýsku miðillinn Kicker sem greinir frá þessu en Edwards flaug í skyndi til Bandaríkjanna til þess að fá samþykki frá eigendum félagsins fyrir kaupunum á þýska sóknarmanninum Florian Wirtz.
Wirtz, sem er 22 ára gamall, er samningsbundinn Bayer Leverkusen í Þýskalandi en í vikunni bárust fréttir af því að forráðamenn Leverkusen vildu fá rúmlega 125 milljónir punda fyrir sóknarmanninn.
Það myndi gera hann að dýrasta leikmanni í sögu Liverpool, sem og ensku úrvalsdeildarinnar, og því boðaði Edwards til neyðarfundar með eigendum félagsins til þess að fá samþykki fyrir kaupunum.
Kicker greinir frá því að forráðamenn Liverpool hafi samþykkt að borga uppsett verð fyrir Wirtz og því er það undir leikmanninum sjálfum komið hvert hann fer en Bayern München hefur einnig mikinn áhuga á Wirtz.