Enski varnarmaðurinn Ben White gefur aftur kost á sér í enska landsliðið í knattspyrnu.
White hefur ekki spilað fyrir enska landsliðið síðan HM 2022 þegar hann yfirgaf herbúðir liðsins eftir að hafa lent upp á kant við Steve Holland, þáverandi aðstoðarþjálfara.
Í kjölfarið gaf White ekki kost á sér fyrir landsliðið en hann á að baki fjóra landsleiki með Englandi.
„Ég er tiltækur,“ sagði White í viðtali við enska götublaðið The Sun.
„Ég hef spjallað við hann nokkrum sinnum. Hann er indæll maður, mjög hreinskilinn,“ sagði White um Thomas Tuchel, landsliðsþjálfara Englands.
Næsta landsleikjahlé er í byrjun júní og mun England mæta Andorru í undankeppni HM og Senegal í vináttuleik.