Arsenal gulltryggði endanlega sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili með sigri á Newcastle, 1:0, á Emirates-vellinum í næst síðustu umferð ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu.
Það er því svo gott sem gulltryggt að Arsenal endi í 2. sæti deildarinnar en Manchester City getur enn jafnað liðið að stigum. Arsenal er þó með töluvert betri markatölu. Newcastle er hins vegar enn í harðri Meistaradeildarbaráttu við Chelsea, Manchester City og Nottingham Forest, með 66 stig í þriðja sæti.
Leikurinn byrjaði fjörlega og fengu bæði lið frábær færi til að komast yfir á fyrstu 20 mínútum leiksins en markmennirnir voru í aðalhlutverkum.
David Raya varði frá bæði Bruno Guimaraes og Dan Burn en varslan frá þeim síðarnefnda var afar glæsileg. Hinum megin varði Nick Pope skalla Thomas Partey af stuttu færi eftir hornspyrnu frábærlega.
Um miðjan hálfleikinn var svo eins og einhver hefði ýtt á takka og slökkt á leikmönnum. Hraðinn í leiknum varð gott sem ekki neinn og fátt var um færi og góðar stöður. Staðan var því markalaus þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik.
Eftir 10 mínútna leik í seinni háfleik komust heimamenn svo yfir. Anthony Gordon tapaði boltanum þá á hættulegum stað á eigin vallarhelmingi og í kjölfarið tíaði Martin Ödegaard upp Rice rétt fyrir utan teig sem þrumaði boltanum glæsilega í fjærhornið.
Þrátt fyrir markið færðist lítið sem ekkert líf í leikinn. Arsenal-liðið spilaði af yfirvegun og það virtist eins og gestirnir næðu ekki að finna kraft til að ná í jöfnunarmarkið.
Að lokum var þetta því nokkuð þægilegur sigur Arsenal-manna, 1:0, í leik þar sem gestirnir ógnuðu lítið sem ekki neitt ef frá eru taldar fyrstu 20 mínútur leiksins.