Nikolaj sótti sigur fyrir Víking

Oliver Ekroth fyrirliði Víkings með boltann í leiknum í kvöld.
Oliver Ekroth fyrirliði Víkings með boltann í leiknum í kvöld. mbl.is/Hákon

Víkingur hafði betur gegn Aftureldingu, 2:1, í 13. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu á Víkingsvelli í kvöld.

Víkingur er með þriggja stiga forystu á Breiðablik á toppi deildarinnar með 29 stig en Afturelding er í sjöunda sæti með 17 stig. 

Staðan var markalaus í hálfleik en Afturelding fékk hættulegri færi. Hrannar Snær Magnússon komst inn á vítateig Víkings og fór í skot en það fór rétt fram hjá á 25. mínútu.  

Eftir rúman hálftíma fékk Afturelding hörkufæri. Hrannar kom með flotta fyrirgjöf á Gunnar Bergmann Sigmarsson sem var mættur á fjær og skallaði boltann á markið en Pálmi Rafn Arinbjörnsson, sem var í byrjunarliði Víkings í kvöld vegna meiðsla Ingvars Jónssonar, varði vel af stuttu færi. Boltinn barst svo út á Aron Jóhannsson sem tók boltann á lofti og skaut rétt yfir og fyrri hálfleikur endaði 0:0.

Víkingar komust yfir þegar aðeins fimm mínútur voru liðnar af seinni hálfleik en það skoraði Nikolaj Hansen eftir frábæra sendingu frá Gylfa Þór Sigurðssyni.

Gylfi sendi boltann upp völlinn á Nikolaj sem byrjaði hlaupið á milli miðvarða Aftureldingar, skildi þá eftir í rykinu, tók eina snertingu fram hjá Jökli Andréssyni og skoraði í autt markið.

Afturelding var ekki lengi að jafna en það gerði Aron Jóhannsson aðeins tveimur mínútum síðar.

Hrannar Snær fékk sendingu frá Elmari á fjær, tók boltann niður og lagði hann út á Aron í einni snertingu, hann tók boltann og negldi honum í markið í fyrstu snertingu og staðan 1:1.

Víkingar lágu á gestunum og náðu loksins að skora á 79. mínútu. Oliver Ekroth sendi langan bolta upp á Karl Friðleif Gunnarsson sem tók boltann með sér. Jökull fór úr markinu og mætti honum en þá sendi Karl boltann fyrir markið á Nikolaj sem tæklaði boltann í markið.

Gestirnir reyndu eins og þeir gátu að sækja jöfnunarmark en Víkingar voru þéttir til baka og náðu að halda út.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Víkingur R. 2:1 Afturelding opna loka
90. mín. Uppbótartíminn að minnsta kosti sex mínútur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
OSZAR »