ÍA vann feikilega mikilvægan sigur á Vestra, 2:0, í 13. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu á Ísafirði í dag. Leikurinn var jafnframt sá fyrsti hjá Lárusi Orra Sigurðssyni sem þjálfara ÍA.
Þetta var aðeins fjórði sigur ÍA í sumar en liðið hefur tapað hinum níu leikjum sínum. Skagamenn eru enn í neðsta sæti en nú með 12 stig, jafnmörg stig og KA í næstneðsta og nær öðrum liðum. Vestri er í sjötta sæti með 19.
Ísak Máni Guðjónsson kom ÍA yfir á 53. mínútu leiksins. Þá keyrði hann að teignum og tók skot utan teigs sem fór af Gustav Kjeldsen og á mitt markið og í netið. Guy Smit var hins vegar kominn í hægra hornið og rúllaði boltinn því inn, 0:1.
Gísli Laxdal Unnarsson bætti við öðru marki Skagamanna á 65. mínútu. Þá tók Rúnar Már Sigurjónsson hornspyrnu inn á teig og eftir klafs barst boltinn til Gísla sem náði að pota boltanum í netið. Ómar Björn Stefánsson reyndi líka við boltann og fagnaði ákaflega og gæti því mögulega hafa skorað markið, en það skráist á Gísla í bili.
Vestri fær Val í heimsókn í næsta leik sínum í deildinni næstkomandi laugardag. Á sama tíma tekur ÍA á móti Fram.