Steven Caulker til Stjörnunnar

Steven Caulker genginn til liðs við Stjörnuna.
Steven Caulker genginn til liðs við Stjörnuna. Skjáskot/Stjarnan

Enski knattspyrnumaðurinn Steven Caulker er genginn til liðs við Stjörnuna og mun leika með liðinu á síðari hluta tímabilsins.

Caulker er 33 ára miðvörður sem hefur komið víða við á ferlinum og lék til að mynda með Liverpool, Tottenham Hotspur, Swansea City, Cardiff City og Southampton í ensku úrvalsdeildinni.

Alls lék hann 123 leiki í úrvalsdeildinni en hefur undanfarin ár leikið með nokkrum liðum í Tyrklandi auk þess að koma við í Skotlandi og á Spáni.

Caulker er landsliðsmaður Síerra Leóne en lék einnig einn A-landsleik fyrir England, vináttulandsleik gegn Svíþjóð, og skoraði í honum. Þá lék hann með liði Stóra-Bretlands á Ólympíuleikunum í Lundúnum sumarið 2012.

Félagaskiptaglugginn hér á landi opnar að nýju þann 17. júlí og þá má vænta þess að Caulker fái leikheimild og geti hafið nýtt ævintýri á Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
OSZAR »