Knattspyrnumaðurinn Jóhann Árni Gunnarsson leikur áfram með Stjörnunni næstu árin.
Félagið hefur tilkynnt að Jóhann sé búinn að framlengja samning sinn við félagið, segir að hann verði áfram í bláa búningnum næstu ár en láðist reyndar að taka fram hversu langur samningurinn er.
Jóhann er 24 ára gamall miðjumaður, uppalinn í Fjölni, og lék með Grafarvogsliðinu til 2021, þar af tvö tímabil í efstu deild, en hefur spilað með Stjörnunni frá 2022.
Hann á að baki 89 leiki í efstu deild fyrir Stjörnuna og Fjölni og hefur skorað 12 mörk og skoraði auk þess 13 mörk í 42 leikjum á tveimur tímabilum með Fjölni í 1. deildinni.