KA tók á móti toppliði Víkinga á KA-vellinum á Akureyri í kvöld þar sem Víkingar lönduðu 2:0-sigri. Leikurinn var í 12. umferð Bestu deildarinnar í fótbolta.
Víkingur er sem fyrr í toppsætinu, nú með 26 atig. Lánlausir KA-menn eru í 11. sæti með 12 stig. Lítill munur var á liðunum en Víkingur nýtti færin sín en KA ekki.
Fyrri hálfleikur var jafn og nokkuð rólegur lengstum. Liðin skiptust á að sækja en ekki var boðið upp á mörg færi. Víkingar brutu svo ísinn eftir hálftíma leik með góðu skallamarki frá Nikolaj Hansen. Gylfi Þór Sigurðsson tók aukaspyrnu og boltinn rataði beint á Nikolaj, sem var undarlega einn á vítateignum. Sá danski stangaði boltann undir slána og í netið. Óverjandi fyrir William Tönning markvörð KA.
Eftir markið sóttu KA-menn í sig veðrið og ógnuðu Víkingum töluvert. Aðeins vantaði herslumuninn hjá KA til að koma inn marki. Allar fyrirgjafir þeirra strönduðu á miðvörðum Víkinga og varnarmúr gestanna var þéttur. Staðan var því 1:0 fyrir Víking í hálfleik.
Liðin skiptust á að eiga sóknarkafla framan af seinni hálfleik. KA-vantaði enn herslumuninn. Löng innköst og fyrirgjafir enduðu mjög oft í að boltinn datt niður í teig Víkings. Þar vantaði KA-mann til að reka smiðshöggið. Víkingur refsaði á endanum þegar Gylfi Þór Þrumaði boltanum í markið eftir góða og yfirvegaða sókn. Þá voru tuttugu mínútur eftir af leiknum. Víkingar kæfðu svo bara leikinn, voru þéttir og gáfu ekki nein færi á sér með Oliver Ekroth eins og kóng í ríki sínu í varnarlínu sinni.
Akkilesarhæll KA-manna er markaskorun þessi dægrin en í fyrstu leikjum tímabilsins láku þeir mörkum. Víkingar höfðu Gylfa Þór Sigurðsson í þessum leik. Hann var lítt áberandi en dúkkaði upp í báðum mörkum Víkinga.