„Fannst við skapa nóg til að vinna leikinn“

Aron Sigurðarson, fyrirliði KR, fagnar fyrra marki sínu gegn Fram …
Aron Sigurðarson, fyrirliði KR, fagnar fyrra marki sínu gegn Fram í kvöld. mbl.is/Kristinn Steinn

Aron Sigurðarson, fyrirliði KR, var að vonum ósáttur eftir 3:2 tap liðsins gegn Fram í Bestu deild karla í kvöld. 

„Ég er bara mjög svekktur. Við sköpuðum okkur færi til að vinna leikinn en ef við höldum áfram að gefa auðveld mörk er þetta erfitt,“ segir Aron.

Skoraði bæði mörk KR

Aron átti góðan leik skoraði bæði mörk KR-inga úr tveimur glæsilegum skotum fyrir utan teig, annars vegar á á 20. mínútu og hins vegar á 69. mínútu.  

„Já, ég er kannski þokkalega sáttur heilt yfir,“ segir Aron, spurður út í eigin frammistöðu.

„En það er erfitt að fókusa á það þegar að við töpum - þá er maður bara að baða sig í einhverju svekkelsi akkúrat núna.“

KR-ingar sterkari í seinni hálfleik

Eftir að hafa lent 3:1 undir í fyrri hálfleik sóttu KR-ingar af miklum þunga að marki gestanna í þeim síðari. Þeir fengu því þó nokkur góð tækifæri til þess að snúa úrslitunum sér í hag, en allt kom fyrir ekki.

Spurður hvort um sanngjörn úrslit hafi verið að ræða segir Aron að svo sé ekki endilega. 

„Já og nei. Við eigum ekkert mikið skilið ef við erum að gefa mörk, en miðað við það sem við sköpuðum fannst mér við ekki eiga skilið að tapa þessum leik. Mér fannst við skapa nóg til að vinna leikinn.“

„Erum að verða betri með hverjum deginum“

KR-ingar fóru taplausir í gegnum fyrstu sex umferðir Íslandsmótsins en hafa nú tapað síðustu tveimur deildarleikjum sínum. Liðið beið einnig lægri hlut gegn ÍBV í Bikarkeppninni síðastliðna helgi, en þrátt fyrir erfitt gengi undanfarinna leikja segist Aron hlakka til þess sem framundan er.

„Við fáum oftast nýjar áskoranir í hverjum leik sem við spilum. Það er augljóst hvernig bolta við viljum spila og við breytum því ekki, sama hverjum við spilum á móti. Við erum að verða betri með hverjum deginum sem líður þannig að þetta er bara hrikalega spennandi.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
OSZAR »