„Ég reyni að blanda einkalífinu og vinnunni ekki saman“

Brynhildur á endalaust af sundfötum og er algjör sérfræðingur í …
Brynhildur á endalaust af sundfötum og er algjör sérfræðingur í þeim fatnaði. Því lá beinast við að hanna sín eigin.

Brynhildur Gunnlaugsdóttir er áhrifavaldur með yfir 118 þúsund fylgjendur á samfélagsmiðlinum Instagram og eina og hálfa milljón fylgjenda á TikTok. Hún er einnig eigandi íþróttamerkisins Arora Sportswear sem kynnti nýlega sundföt til leiks en sjálf segist hún eiga endalaust af sundfötum.

„Ég náði mestum vinsældum árið 2020 þegar ég fór að birta á TikTok. Það var þá eitt myndband sem fór víða og skilaði mér um einni milljón fylgjenda. Þá byrjaði ég að birta meira og meira og boltinn fór að rúlla. Ég endaði með 1,8 milljónir fylgjenda á TikTok sem hefur lækkað svakalega síðan þá en það er aðeins erfiðara að vera virk með eigið fyrirtæki og barn,“ segir Brynhildur.

Hún er upphaflega frá Egilsstöðum en hefur verið búsett víða vegna fótbolta og vinnu. Brynhildur á 16 mánaða gamla dóttur með kærasta sínum Dani Koljanin, atvinnumanni í körfubolta, og segir það hafa verið ákveðna áskorun að sameina móðurhlutverkið við starfsframann.

„Ég er mjög þakklát fyrir kærastann minn sem er með henni alla daga á meðan ég er í vinnunni. Hann er atvinnumaður í körfubolta sem hentar vel en vinnan hans er að fara á æfingu seinnipartinn. Foreldrar mínir búa enn á Egilsstöðum og fjölskylda hans í Króatíu svo það hefur oft verið erfitt að vera bara tvö. Þá koma vinir og önnur skyldmenni sterk inn sem við erum afar þakklát fyrir. Einnig er þægilegt að vera minn eigin yfirmaður því þá get ég stjórnað því svolítið hvenær ég vinn. Það koma dagar sem ég vinn langt fram á kvöld ef ég náði ekki að ljúka við hluti fyrr um daginn. Ég reyni að blanda einkalífinu og vinnunni ekki saman svo það er líka mikilvægt að vera með aðstöðu fyrir vinnuna.“

Brynhildur hefur verið í íþróttum alla sína ævi og er …
Brynhildur hefur verið í íþróttum alla sína ævi og er líkamsrækt stór hluti af lífi hennar í dag.

Reka strandbar í Króatíu

Á sumrin flytur fjölskyldan til Króatíu þar sem kærasti Brynhildar rekur strandbarinn Jardin. „Á veturna erum við á Íslandi en það getur breyst eftir því hvar hann er að spila. Þegar ég varð ólétt bjuggum við til dæmis í Belgíu því hann var að spila þar,“ útskýrir hún.

Daglegt líf er afar venjulegt þó að það líti ekki út fyrir það á samfélagsmiðlum.

„Ég vakna yfirleitt um sjö þegar dóttir mín vaknar og ver morgninum með henni. Ég fer svo í ræktina og í vinnuna og reyni að klára allt sem ég þarf að klára áður en ég fer heim um fjögur. Þá fer ég bara beint í að elda og leika við dóttur mína þangað til hún sofnar,“ segir Brynhildur.

Eru ferðalög stór hluti af lífi þínu?

„Ég myndi ekkert endilega segja það. Ég hef ferðast mikið, en það lítur kannski út fyrir að ég ferðist meira á netinu, það er langskemmtilegast að fylgjast með því.“

Mikil eftirspurn en lítið úrval er af sundfötum hér á …
Mikil eftirspurn en lítið úrval er af sundfötum hér á landi að mati Brynhildar.

Íþróttamerkið samfélag kvenna

Brynhildur er stofnandi íþróttamerkisins Arora Sportswear sem hún segir fyrst og fremst eiga að hjálpa konum sem eru að glíma við lítið sjálfstraust í ræktinni. Á síðasta ári kom vinkona hennar, Sara Jasmín Sigurðardóttir, inn í fyrirtækið.

Hver er hugsunin á bak við Arora Sportswear?

„Innblásturinn kemur að mestu leyti frá því hvað ég þekki það vel að vera ekki með fullt sjálfstraust í ræktinni. Þegar ég var yngri þá hjálpaði það mér að vera í þægilegum og stílhreinum æfingafötum. Það er mikilvægt að líða vel í eigin líkama, hvernig sem hann er. Við viljum að Arora sé ekki bara íþróttamerki heldur líka samfélag fyrir konur á öllum aldri sem vilja bæta eigin heilsu hvort sem hún er líkamleg eða andleg.“

Hvaðan kemur hönnunaráhuginn og hvernig kom það til að þú myndir stofna fatamerki?

„Ég hef verið í íþróttum alla mína ævi og stundað líkamsrækt í yfir ellefu ár. Ég hef prófað endalaust af æfingafötum og er mjög nákvæm í því sem ég klæðist í ræktinni. Þau þurfa að vera flott, þægileg og endast vel. Svo hef ég alltaf haft mikinn áhuga á sköpun og að fá að gera eitthvað skapandi. Mamma mín er listakona og ég hef það kannski frá henni en ég vinn best í skapandi starfi.“

Hún segir fatamerkið leggja sérstaka áherslu á ungar stelpur sem vilja að sér líði vel í eigin skinni og ná árangri. „Með fallegum og þægilegum fatnaði hjálpum við konum að finna sjálfstraust og styrk í hverri æfingu, sérstaklega á þeim dögum sem maður þarf þessa aukahvatningu.“

Hvaða áskorunum hefur þú mætt við reksturinn?

„Þær eru margar og kannski erfitt að velja eitthvað eitt. En ég er ekki með neina menntun í fyrirtækjarekstri svo ég hef þurft að læra allt af reynslunni.“

Sundfötin eru ný í vöruúrvali Arora Sportswear.
Sundfötin eru ný í vöruúrvali Arora Sportswear.

Sérfræðingur í sundfötum

Af hverju sundföt?

„Okkur fannst vera mikil eftirspurn og lítið úrval af flottum sundfötum á Íslandi. Þrátt fyrir að vera ekki sólarland þá elskum við Íslendingar að fara í sund og við ferðumst mikið. Ég hef sjálf oft lent í því að þurfa flott bikiní með stuttum fyrirvara og þá var eiginlega ekki hægt að finna neitt. Ég ferðast mikið og á mjög mikið af sundfötum sjálf svo ég tel mig sérfræðing í málinu,“ segir Brynhildur.

„Það kom ekkert annað til greina en að taka Arora aðeins í aðra átt og gefa út okkar eigin sundföt. Vinkona mín, Sara Jasmín, kom inn í fyrirtækið í fyrra og við höfum unnið saman að sundfatalínunni síðan. Það var gaman að geta fengið annað sjónarhorn inn í fyrirtækið en við Sara erum ólíkar og þá mismunandi hvaða snið og hönnun við viljum. Við fundum hinn fullkomna milliveg í okkur báðum.“

Hvað áttu mikið af sundfötum?

„Endalaust. Ég átti fullt af sundfötum en núna hefur magnið fjórfaldast út af öllum prufunum sem við gerðum fyrir okkar eigin sundföt. Allar myndirnar á Instagram hjá mér í fyrra voru til dæmis bara af mér í prufubikiníum frá Arora Swim. En það er mikilvægt að eiga flott og þægileg sundföt.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu og umsjónarmaður Meðvirknipodcastsins

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

fasteignasali svarar spurningum lesenda

OSZAR »