„Ég ætlaði ekki að verða svona frægur fyrir fíflalæti“

Erpur Eyvindarson er gestur Haraldar Þorleifssonar í hlaðvarpsþættinum Labbitúr.
Erpur Eyvindarson er gestur Haraldar Þorleifssonar í hlaðvarpsþættinum Labbitúr.

Erpur Eyvindarson er gestur í hlaðvarpsþætti Haraldar Þorleifssonar, Labbitúr. Erpur er þekktur undir listamannanafninu BlazRoca. Haraldur, eða Halli eins og hann er kallaður, ræðir við Erp á einlægan og heiðarlegan hátt um feril þess síðarnefnda, íslensku rappsenuna og hvernig ferðalög hafa mótað lífsviðhorf hans. 

Erpur byrjaði snemma að feta sig inn á brautina sem hefur gert hann að einum af mikilvægustu listamönnum Íslands. Hann rifjar upp stofnun Rímnaflæðis, fyrstu keppninnar í íslensku rappi, og hvernig það þróaðist yfir í hinn goðsagnakennda hóp XXX Rottweiler hundar. Hann lýsir þessum tíma sem hrárri sprengingu sköpunar þar sem stemningin var mikil og markaður fyrir íslenskt rapp lítt þróaður.

Erpur Eyvindarson.
Erpur Eyvindarson. mbl.is/Óttar Geirsson

Ekki láta einhver markaðstrýni eiga þig

„Við ætluðum ekki einu sinni að vera eitthvað formlegt band fyrst. Þetta var bara stemning og ástríða fyrir því að búa til tónlist á íslensku," segir Erpur. Þegar fyrsta plata Rottweiler hundanna sló í gegn, með lögum eins og „Beygla“, breyttist allt – þeir urðu stórir á einni nóttu. 

Erpur segir þó að frægðin hafi ekki alltaf verið auðveld. Á sama tíma og hann varð þjóðþekktur sem rappstjarna, öðlaðist hann líka óvænta sjónvarpsfrægð með karakternum Johnny Nas í sketsaþáttum.

„Ég ætlaði ekki að verða svona frægur fyrir fíflalæti" segir hann hlæjandi. „En svo bara fór þetta af stað, og maður nýtti sviðsljósið til að draga góðar hugmyndir fram.“

Í samtalinu dýfir Erpur sér líka í djúpar pælingar um list, frelsi og áhrif kapítalisma. Hann lýsir því hvernig hann hefur alltaf viljað halda sjálfstæði sínu sem listamaður: „Þetta er frelsi, það sem list á að vera er algjört total frelsi. Þess vegna er alveg hræðilegt þegar þú lætur einhver markaðstrýni eiga þig. Ég á allt mitt nema helminginn af fyrstu plötunni okkar er 50/50 á milli okkar og útgefandans,“ segir hann.

Erpur gagnrýnir hvernig listamenn eru oft kúgaðir til að falla að væntingum markaðarins í stað þess að fylgja eigin sannfæringu.

Erpur og Bent.
Erpur og Bent. mbl.is/Kristinn Magnússon

Við búum í vestrænni búbblu

Erpur talar einnig með miklum tilfinningum um áhrif pönksins á sig:

„Ég er alltaf verið rosa mikill pönkari. Hef orðið fyrir rosalegum áhrifum úr pönkinu. Rottweiler er rosalega mikið pönk líka. Í pönkinu segirðu hluti til að rífa upp í fólki.“

Þegar talið berst að ferðalögum og dýralífi opnast önnur hlið á Erpi. Hann lýsir ferðalögum sínum til Kúbu, Mið-Austurlanda og Afríku með ástríðu fyrir menningu, plöntum og dýrum. Hann segist vera heillaður af þjóðum sem hafa viðhaldið menningu sinni þrátt fyrir nýlendustefnu og kúgun vestrænna ríkja.

„Því við búum í búbblu, vestrænni búbblu. Það er búið að ljúga stanslaust að okkur að okkar heimsmynd, þessi vestræna heimsmynd. Hún er í rauninni bara mesta djöfla sýra, um leið og einhver prófar að fara ekki til Flórída eða Tenerife. Byrjar að fatta hvað mannkynið er magnað, og þá meina ég mannkynið,“ segir hann ákveðinn.

Viðtalið endar á bjartsýnum nótum þar sem Erpur talar um mikilvægi þess að endurnæra sig, halda áfram að læra og reyna að sjá stærra samhengi lífsins. Hann talar um ást sína á því að ferðast, kafa og synda – og hvernig það hjálpar honum að endurheimta sjálfan sig.

„Það er mikilvægt að fara eitthvað lengst í burtu til að finna sjálfan sig aftur. Þegar samfélagið er með þér á leiksviðinu þá er svo gott að fara eitthvað lengst út í rassgat.“

Hægt er að hlusta á þáttinn hér fyrir neðan: 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu og umsjónarmaður Meðvirknipodcastsins

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

fasteignasali svarar spurningum lesenda

OSZAR »