Einar Hugi Bjarnason, lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur, svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá manni sem veltir fyrir sér hvernig hann geti gefið börnunum sínum hlut í fyrirtækinu sínu.
Góðan dag
Ég er 66 ára karlmaður sem á vel rekið fyrirtæki með mikla veltu og eignir. Nú er ég farinn að huga að efri árum. Ég á tvö börn sem einnig vinna í fyrirtækinu. Mig langar að láta börnin mín eiga hlut í fyrirtækinu. Hvaða leiðir eru í boði? Ef ég læt þetta sem fyrirfram greiddan arf hvernig reiknast erfðafjárskattur af hlut í fyrirtæki?
Með fyrir fram þökkum,
GHJ
Góðan dag,
Börnin eru skylduerfingjar þínir ásamt maka ef þið hafið gengið í hjónaband. Samkvæmt því munu börnin, að óbreyttu, erfa hlut í fyrirtækinu að þér látnum.
Þú hefur einnig þann kost að ráðstafa hlutum í fyrirtækinu til barna þinna með fyrirframgreiddum arfi. Undir þessum kringumstæðum er nauðsynlegt að skila til sýslumanns erfðafjárskýrslu og greiða 10% erfðafjárskatt af hinum fyrirframgreidda arfi. Þetta síðastnefnda er afar þýðingarmikið, enda yrði ella litið svo á að um gjöf væri að ræða sem skattlögð yrði sem tekjur sem er töluvert hærri en erfðafjárskattur.
Erfðafjárskattur greiðist aðeins af þeirri fjárhæð sem er umfram skattfrelsismörk og njóta erfingjar skattfrelsis í hlutfalli við arf sinn. Skattstofn erfðafjárskatts vegna hlutafjár í óskráðum félögum miðast við gangverð þeirra í viðskiptum, annars bókfært verð eigin fjár samkvæmt síðasta endurskoðaða ársreikningi eða árshlutareikningi viðkomandi félags að viðbættum áunnum óefnislegum verðmætum sem metin eru til fjár og gefa af sér arð í framtíðinni en óheimilt er lögum samkvæmt að færa til bókar.
Bestu kveðjur,
Einar Hugi Bjarnason, hæstaréttarlögmaður.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Einari Huga og öðrum lögmönnum á Lögfræðistofu Reykjavíkur spurningu HÉR.