Ljósið hefur skinið skært á Kristínu Gunnarsdóttur og Ólöfu Skaftadóttur eftir að hlaðvarpið Komið gott fór í loftið síðasta sumar. Sumir myndu segja risaljós. Þær eru óttalausar og stríðnar þegar þær fjalla um menn og málefni og taka það ekki nærri sér ef einhver fer í fýlu. Þær eru nefnilega ekki allra, líkt og þær segja sjálfar. En hvaða guggur eru þetta? Hvaðan komu þær og hvert eru þær að fara?
Ólöf og Kristín bundust sterkum vináttuböndum um unglingsaldur. Veitingastaðurinn Humarhúsið innmúraði vinskap, sem aldrei hefur borið skugga á, en Kristín vann þar meðfram Menntaskólanum í Reykjavík ásamt sameiginlegum vini þeirra Tyrfingi Tyrfingssyni leikskáldi sem var með Ólöfu í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Eftir menntaskólann flutti Kristín til Berlínar þar sem hún lærði hönnun og Ólöf fór í Háskóla Íslands þar sem hún lærði ritlist og bókmenntafræði.
„Ég bjó í Þýskalandi í sex ár þar sem ég var í háskólanámi. Svo fór ég að drita niður börnum,“ segir Kristín sem er gift og á þrjár dætur. Það að byrja með hlaðvarp var ekki skyndihugdetta og má segja að hugmyndin hafi kviknað þegar kórónuveiran geisaði. Þær eru hins vegar óskaplega fegnar að hafa ekki kveikt á míkrófónunum þá því landsmenn hafi kannski ekki verið tilbúnir fyrir þær.
„Það var eiginlega Sól vinkona okkar, sem bjó þá í Kaupmannahöfn, sem sagði við okkur að við þyrftum að kaupa sína míkuna hvor og leyfa henni og öðrum að verða vitni að þessu. Við hugsuðum mikið um þetta en verkstolið var algert. Svo var Sól komin í fæðingarorlof, pikkföst í einhverjum endurtekningarsömum athöfnum að klofna úr leiðindum þegar við tókum á okkur rögg og lögðum af stað í þetta,“ segir Ólöf.
Eitt af mörgu sem þær gera í Komið gott er að þær nafngreina fólk og segja frá atvikum sem sumir blygðast sín fyrir.
„Það var alltaf pæling að vera með mikla breidd í því sem við vildum tala um og það kom skýrt fram að þetta væri alls ekki fyrir alla. Það var uppleggið og svo þetta með að nafngreina. Okkur fannst það svo fyndið í þessu litla samfélagi,“ segir Kristín.
„Við nafngreinum samt ekki nema þá sem við vitum að geti tekið því,“ segir Ólöf.
„Svona 85% af tímanum náum við því en svo eru 15% sem eru brjáluð,“ segir Kristín og hlær.
„Mér skilst að Aspelund-fólkið sé alveg uppi á afturlöppunum,“ segir Ólöf, létt í bragði.
Íslenska þjóðarsálin getur verið móðgunargjörn á köflum og oft móðgast fólk fyrir hönd annarra. Hvað er það í okkur að móðgast fyrir hönd annarra?
„Þetta er einhver uppgerðargóðmennska og kannski það að fólk hafi ekki nógu mikið að gera í hversdeginum,“ segir Ólöf.
„Þetta er hugmyndaþurrð. Það er svo geggjað gaman fyrir fólk að eiga sameiginlegan óvin,“ segir Kristín og kippir sér lítið upp við það þegar hún heyrir að einhverju öðru fólki finnist þær óbærilegar.
Nú virðist ykkur vera alveg sama um hvað öðrum finnst. Hafið þið alltaf verið þannig?
„Já, en það er líklega einhver röskun. Það er miklu algengara að fólk hugsi þetta hinsegin. Það er hefð fyrir svona þáttum í útlöndum þar sem fólk er tekið fyrir. Ef ég væri stjórnmálamaður eða opinber persóna sem væri ekki minnst á í svona þætti þá myndi ég fara að hafa áhyggjur. Það má nefnilega gera grín að fólki og það er líka einhver leið fyrir venjulegt fólk sem þarf að sitja undir valdhöfum til að komast af. Svo er svo mikilvægt að muna að það er val að móðgast,“ segir Ólöf.
Hvernig undirbúið þið þættina?
„Við erum með eitt skjal sem við hendum inn í og svo tökum við efnin út þegar við erum búin að tala um þau. Það er alltaf einhver beinagrind þarna en við vöðum úr í einu í annað,“ segir Kristín.
„Við erum strúktúrlausar með öllu. Sem er reyndar ein gagnrýni sem við heyrðum frá Rúv. þegar við vorum að byrja með hlaðvarpið. Viðkomandi ætlaði að fara að fjalla um það í einhverjum þætti á ríkismiðlinum. Umsjónarmaður þáttarins gafst bara upp á því að ætla að fjalla um okkur. Fórnaði bara höndum og hugsaði: hvaða rugl er þetta? Ég skil það vel. En ég er alltaf með notes-skjal í símanum mínum sem ég skrifa inn í þegar ég heyri eitthvað fyndið og hef það alltaf eftir fólki,“ segir Ólöf.
„Ólöf var í flugi um daginn með vinkonu okkar Áslaugu Örnu, sem er náttúrlega mikið tekin fyrir í hlaðvarpinu, og þá kom kona upp að þeim og spurði: Eruð þið sem sagt alveg vinkonur ennþá? Ólöf svaraði bara og sagði: Auðvitað er þetta ótrúlega erfitt á milli okkar. Sem er það auðvitað ekki, en það er fyndið að það er fullt af fólki þarna úti sem heldur ábyggilega að við séum búnar að reka þannig fleyg í vinskap og vinnusambönd okkar. Það er vonandi ekki raunin,“ segir Kristín og hlær.
Það er styrkur í því að geta sagt það sem fólki býr í brjósti eins og þið gerið. Upplifið þið að umræðan sé að breytast?
„Já, við hefðum aldrei getað verið með þennan þátt fyrir nokkrum árum. Þá hefði hann verið allt öðruvísi. Við erum orðnar 36 ára núna og maður er öruggari í sinni sök, að leyfa hálfvitanum sem maður er að blómstra og mæta sér í mildi. Ætlunin með þessu er ekki að reyna að færa einhverja línu eða ætla sér einhverja ótrúlega mikla pólitík. Við erum bara að reyna að gleðja okkar fólk í hversdeginum. Þessi þáttur er fyrir okkur og okkar fólk,“ segir Ólöf og segir að það sé oft ekki mikill munur á samtölum þeirra í Komið gott og í þeirra persónulegu samtölum sem þær eiga sín á milli.
Hvernig voruð þið sjálfar þegar þið voruð 20 ára?
„Við vorum svona fólkið sem fór á Airwaves og héngum á Kaffibarnum með sígó út í eitt og fórum í sleik við einhverja gæja með fíknivanda. Við vorum með bölvuð læti þá líka og vorum ekkert að pæla í því hvað fólki fannst þannig,“ segir segir Kristín.
Hvað dreymdi ykkur um þegar þið voruð á þessum aldri?
„Mann langaði að vera nettur, það var markmið. Þú varst að vinna í kvikmyndabransanum Ólöf og við vorum listamegin. Ég var í árgangi með K-Frost (Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra) og Birni Brynjúlfi framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs. Þetta er á þessum tíma þegar allir ætluðu sér að verða ríkir. Allir ætluðu að verða ógeðslega „successful“, það var stemningin í þessum hópi sem var í MR á þessum tíma og ég tengdi mjög lítið við það. Ég þekki ekki helminginn af þeim sem ég útskrifaðist með því ég var ekki á staðnum. Þannig að metnaður heillaði okkur ekki. Það átti að vera eitthvað miklu nettara í gangi hjá okkur,“ segir Kristín.
„Við vildum samt alveg vera svona hybrid-útgáfa. Listakapítalistar einhverjir sem eiga fyrir sinni gulu ekkju,“ segir Ólöf og er þá að vísa í kampavínstegund sem þær vinkonur drukku af miklum móð á Humarhússárunum, árunum rétt fyrir efnahagshrunið.
Þannig að ykkur dreymdi ekki um gulltennur og Range Rover?
„Nei, og það var enginn í kringum mig sem tók á sig rögg og skráði sig í lögfræði,“ segir Kristín.
„Sem er fáránlegt því pabbamegin erum við 14 barnabörn, einn hagfræðingur, einn læknir, ellefu lögfræðingar og ég. Það er eiginlega fáránlegt að ég hafi ekki farið í lögfræði en ég held að það hafi verið því ég er ófær um að fylgja handriti eða reglum,“ segir Ólöf sem var mikið í skóla í útlöndum þegar hún var lítil því faðir hennar, Skafti Jónsson, sem er ein dægurstjarnan úr Komið gott-hlaðvarpinu, er diplómati.
„Mamma vildi að ég færi í háskólann til að lesa íslensku almennilega. Hún var búin að átta sig á að það væru skrif og orð sem ég hefði áhuga á og það væri gott að hafa almennilegt vald á málinu. Foreldrum mínum finnst ég varla læs né skrifandi – hvorki þá né nú – og alls ekki talandi á mæltu máli. Þau sendu mig fullorðna manneskjuna í skóla að reyna að lappa upp á þessa ægilega vondu íslensku mína. Þarna er alvöruaðhald í uppeldi. Svo fór ég bara að vinna á Fréttablaðinu. Og ég sá það bara fyrir mér, að minnsta kosti í einhvern tíma, að vera í fjölmiðlum,“ segir Ólöf og er þá að tala um móður sína, Kristínu Þorsteinsdóttur fjölmiðlakonu.
Fórstu bara í háskólann fyrir mömmu þína Ólöf?
„Nei, ég vissi að ég vildi alveg fara í háskóla en ég var ekki viss um hvað ég vildi læra. Ég var byrjuð að vinna á Fréttablaðinu og var glöð þar. Vann þar í tröppugangi, þar til ég var orðin ritstjóri, og svo einn daginn var blaðið keypt og mér var sagt að ég mætti ekki mæta í vinnuna daginn eftir. Ég var á starfslokasamningi í ár og var bara að drekka Gull Lite og hanga í Tennishöllinni. Við grínumst talsvert með þetta, ég er alltof ung til að hafa fengið svona marga starfslokasamninga en ég er hrifin og tennissveiflan verður betri með hverjum starfslokasamningi. Ég hlakka til næsta,“ segir hún.
Þú gerir lítið úr þessu, að þetta hafi verið fyndið að hafa misst vinnuna. Upplifðir þú ekki höfnunartilfinningu og leið þér ekkert illa?
„Það er ekkert gaman að vera rekinn, en leið mér illa? Nei. Ég hefði alveg viljað vinna þarna lengur, en í dag er ég bara þakklát herranum sem keypti blaðið og vildi ekki sjá mig. Ef þú sæir mig í Tennishöllinni, þá værirðu sammála. En í fullri alvöru, þá langaði mig ekkert að vinna með þessum manni, ekki frekar en hann með mér,“ segir Ólöf og er þá að vísa í Helga Magnússon auðmann sem keypti Fréttablaðið 2019.
„Þetta var gagnkvæmt fúss,“ segir Kristín og hlær.
„Ég hefði ekki viljað vera einhver útfararstjóri á blaði með hann þarna yfir mér. Mér fannst við gera vel úr því sem við höfðum á blaðinu síðustu árin og er montin af því. Ég eignaðist suma af mínum bestu vinum enn í dag, sem sumir koma fyrir í hlaðvarpinu. Ég nefni Primaloft-strákinn okkar, Hörð Ægisson, og fleiri. Ég hef engar umkvartanir í garð Helga Magnússonar og sendi honum og öllum eigendum fjölmiðla bara ljós,“ segir Ólöf.
„Og þú kynntist hálfu Íslandi í leiðinni. Þetta pod hefur ekki síst notið þess. Þíns geigvænlega tengslanets,“ segir Kristín.
Kristín vinnur í markaðssetningu og miðlun hjá Eflu. Þegar hún er spurð hvernig það sé að verða skyndilega þekkt játar hún að það séu viðbrigði.
„En það er svo ógeðslega mikið að gera hjá mér í hversdeginum að ég hef lítinn tíma til þess að vera að hugsa um það sérstaklega,“ segir hún.
„Við fórum reyndar út að borða um daginn allur vinahópurinn á Kastrup og við höfðum ekkert merkilegt að tala um, enda lifum við allar svo leiðinlegu lífi, og þá komu svona hvítvínskonur og eiginlega björguðu okkur hverri frá annarri með sínu gjammi sem mér fannst ægilega fyndið. Þannig að ég hlýt að þakka fyrir slíkt uppbrot í daginn,“ segir Ólöf og er þá að vísa í frægð þeirra vinkvenna.
„Það komu einhverjar guggur á skallanum að borðinu og voru í stuði,“ segir Kristín og hlær og bætir við:
„Þetta eru alveg viðbrigði fyrir mig. Ég er líka í námi þannig að það er ekki mikið rými fyrir mig að vera niðri í bæ að skála og láta ljós mitt skína. Þetta er auðvitað tótal geðveiki að standa í þessu öllu, auk þess að sjá um þrjú börn og reyna að gera það með einhverri reisn. En ég sé fyrir endann á þessu námi og þá ætla ég að einbeita mér að því að fá mér aðeins meiri Lite og svona,“ segir Kristín.
„Stína er svona manneskja sem klárar allt sem hún byrjar á. Hún hættir engu. A-stúdent að því leyti. Inni í henni er ein rödd sem er ótrúlega leiðinlegur skólastjóri sem tekur mikið yfir og þá lít ég á það sem mitt hlutverk að milda þann skólastjóra,“ segir Ólöf.
„Já, skólastjórinn veitir enga afslætti, er ógeðslega harður og ógeðslega leiðinlegur. Þetta er ekki það að ég ætli að vera besta útgáfan af sjálfri mér heldur er þetta ofbeldi í eigin garð,“ segir Kristín og játar að hún hafi alltaf verið samviskusöm og vandlát á það sem hún gerir.
Finnið þið fyrir meiri pressu að vera fínni til fara eftir að Komið gott fór í loftið?
„Nei, þú sérð að ég er í hettupeysu núna. Við erum ekki forsetar, ekki ennþá. Við erum raunar meira og minna í spandexi,“ segir Ólöf sem ferðast um bæinn fótgangandi og klæðaburðurinn er í samræmi við það.
„Við erum ekki tískuguggur,“ segir Kristín og Ólöf grínast með að það sé miklu meiri pressa að vera mjóar.
„Við erum að tala um alla og fólk má tala um okkur eins og það lystir. Ef það er verið að bera einhverjar kjaftasögur í vini okkar þá segjum við að fólk eigi að staðfesta allt og margfalda með fimm. Það er nálgunin,“ segir Kristín og hlær.
„Fólk er aðeins að bera út um okkur eitthvert bull og mér finnst það gaman, því það lætur okkur líta út fyrir að lifa talsvert skemmtilegra lífi en raunin kannski er. Svo er mikilvægt fyrir mannskap eins og okkur, rígmontnar og erfiðar sem látum allt flakka, að muna það að þeir sem gefa skit – þeir þurfa líka að geta tekið skít.“
„Eiginlega þriðjudagar hér,“ segir Kristín þar sem við sitjum í höfuðstöðvum Komið gott á 101 hóteli.
„Okkur finnst langskemmtilegast að vera bara hér, þótt við séum farnar að taka einhver gigg hér og þar. Það var gaman að halda svona „live pod“ sem við sendum ekki út og getum þá leyft okkur að ganga aðeins lengra. Við ákváðum það í algerum gassagangi. Ég var ánægð með það enda ætlum við að halda annað núna í maí,“ segir Kristín og er þá að tala um þegar þær fylltu Iðnó í byrjun desember en planið er að gera slíkt hið sama 21. maí í Austurbæ, á stærri vettvangi.
„Það sem stendur eiginlega upp úr hvað mig varðar er hvað pabbi minn er orðinn mikil stjarna í hversdeginum sínum. Allir vinir hans og vinkonur tala mikið um tvo metra af elegans og hvernig honum gengur að ráða fram úr athöfnum daglegs lífs. Það er upp og ofan á tækniöld,“ segir Ólöf og er þá að vísa föður sinn.
„Það er búið að lyfta þeim herramanni upp til skýjanna og við dýrkum það,“ segir Kristín og Ólöf segir að hann eigi þetta skilið.
Þegar Kristín og Ólöf eru spurðar hvað sé fram undan segjast þær vera í alls konar pælingum.
„Við ætlum að halda áfram meðan þetta er skemmtilegt en við erum alveg með pælingar um að fara með þetta í aðrar áttir líka. Gera viðhafnarþætti í sjónvarpi í kringum kosningar eða eitthvað í þá áttina. Ég elska dagvinnuna mína og vinn líka í þannig umhverfi að það gefur okkur mjög mikið efni inn í þættina. Þetta er einhver synergía. En það er búið að bjóða okkur alls konar og það er líka gaman að taka einhverja meinta fundi með Stínu þar sem við erum að þykjast velta við einhverjum steinum,“ segir Ólöf.
„Ef eitthvað verður vinsælt vill fólk fá það til sín en við viljum ekki fá neinn ritstjóra yfir okkur. Af því að við erum hræddar um að við fletjumst mjög hratt út undir einhverju svona öðru „agenda“ en okkar eigin. Við erum að passa okkur á því,“ segir Kristín.
„Mér finnst allt í kringum þetta hlaðvarp bara ógeðslega skemmtilegt. Engar hefðbundnar reglur fjölmiðla eiga við þarna. Þetta er annað „animal“. Maður finnur það. Við tókum viðtöl við nokkra stráka í nóvember og styrkurinn í þeim viðtölum var hvað við þekkjumst vel sem er vanalega bannað. Allt þetta er svo mikið frelsi fyrir mig sem hata reglur en hef eytt lunganum af mínum ferli í að lúta reglum hefðbundinna fjölmiðla,“ segir Ólöf.
Græðið þið ekki fullt af peningum á þessu?
„Það gengur bara vel núna,“ segir Ólöf.
„En við gerðum þetta í hálft ár án þess að fá krónu,“ segir Kristín en þær segja að hlaðvarpið sé takmörkuð auðlind því það sé bara hægt að selja ákveðið magn af auglýsingum.
Hvernig fólk finnst ykkur skemmtilegast?
„Náttúrlega galgopar,“ segir Ólöf.
„Fólk sem hefur skoðun og segir hana án þess að setja einhverja varnagla áður en það segir það. Fólk sem er ekki lafandi hrætt við álit annarra. Það er auðvitað skemmtilegasta fólkið,“ segir Kristín.
„Fólk sem hefur húmor fyrir sjálfu sér og sínum,“ segir Ólöf.
„Ég var beðin að koma í eitthvert femínistapallborð um daginn og glíma við einhverjar eldri rauðsokkur. Ég hef ekki áhuga á að mér sé stillt upp í eitthvert svoleiðis samhengi. Gamli femínistinn versus eitthvað,“ segir Kristín.
„Við skildum ekkert hvað þú áttir að gera þarna. Hvort þú værir einhver andfemínisti eða „new wave“-femínisti,“ segir Ólöf.
„Ég veit ekkert hver undirliggjandi hugmyndafræðin var. Ég meina, er það ekki fullkominn femínismi að konur segi það sem þær langar? Og standi í lappirnar gagnvart því. Eitthvað er fyndið, annað er minna fyndið. Vera svolítið ömurleg og sökka stundum. Vera mistæk og glötuð. Er það ekki fullkomið jafnrétti,“ segir Kristín.
„Svo er það líka bara þannig að Íslendingurinn elskar að skipa fólki á bása. Eftir að við byrjuðum með þetta pod var ég á tveimur útvarpsstöðvum í viðtali í sömu vikunni. Á annarri stöðinni var ég kynnt sem fulltrúi miðjunnar, þetta var í aðdraganda kosninga, en á hinni stöðinni var ég öfgahægrimaður. Ég mótmælti hvorugu,“ segir Ólöf.
Talið berst að fréttum og þá sérstaklega fréttum af klæðnaði fólks og viðbrögðum eldri kynslóða við síkum fréttaflutningi.
„Mér finnst geðveikt gaman þegar fólk velur sér að móðgast yfir því þegar þú segir fréttir af því hvað einhver jakki kostar. Það gerir geðveikt mikið fyrir mig í hversdeginum. Hvers vegna er þetta fólk svona reitt,“ segir Ólöf og bætir við:
„Það er í raun erfiðara fyrir þau að fá dóm Smartlands um einhverja flík en að ganga í gegnum alvöru pólitískt illviðri,“ segir Ólöf og hlær.
„Þetta langlundargeð þitt í 14 ár. Það er enginn að setja spurningarmerki við þetta lengur. Smartland er bara stofnun. Þú getur lesið það eða ekki. Það er líka val,“ segir Kristín.
„Ertu ekki bara búin að setja punginn á borðið Marta, loksins,“ segir Ólöf og við fáum gott hláturskast.