Piltarnir fjórir sem vilja láta gott af sér leiða.
Piltarnir fjórir sem vilja láta gott af sér leiða.

Á sunnudaginn eftir viku kl. 14 ætla fjórir piltar í Laugalækjarskóla að hlaupa í kringum Húsdýragarðinn í Laugardalnum til styrktar Gleym mér ei, samtökum sem styðja við foreldra sem missa börn á meðgöngu og í/eftir fæðingu.

Piltarnir, sem heita Sturlaugur Hrafn Ólafsson, Hrafnkell Flóki Freysson, Helgi Þrastarson og Ari Flóki Helgason, segjast hafa viljað gera eitthvað sem skipti máli áður en grunnskólagöngunni lyki og ákveðið því að nota tíma sinn og orku í þetta framtak. „Með þessu viljum við bæði safna fé fyrir samtökin og vekja athygli á mikilvægi þess að styðja við foreldra sem verða fyrir missi á meðgöngu eða fljótlega eftir fæðingu,“ segja þeir. Þeir vilja fá fólk með sér í lið með því að hlaupa í hlaupinu eða heita á hlaupara og leggja sitt af mörkum með frjálsum framlögum. Öll framlög renna beint til Gleym mér ei.