Tandur ehf., leiðandi fyrirtæki á sviði hreinlætislausna fyrir atvinnulíf og stofnanir, hefur gengið til formlegs samstarfs við Kokkalandsliðið og Klúbb matreiðslumeistara með undirritun styrktarsamnings. Markmið samningsins er að efla aðstöðu og umgjörð íslenska landsliðsins í matreiðslu, með áherslu á öryggi, gæði og hreinlæti – lykilþætti í alþjóðlegri keppnismatreiðslu að því fram kemur í tilkynningu frá Klúbbi matreiðslumeistara.
„Við lítum á þetta sem mikinn heiður,“ segir Elínborg Erla Knútsdóttir, markaðsstjóri Tandurs. „Það að styðja við lið sem vinnur við að hámarka nákvæmni, fagmennsku og hreinlæti undir miklu álagi á alþjóðavettvangi er í takt við okkar eigin gildi og starfsemi. Íslenskir matreiðslumenn eru í fremstu röð – og við viljum vera með þeim í liði.“
Íslenska kokkalandsliðið hefur á undanförnum árum náð ótrúlegum árangri. Á Ólympíuleikunum í matreiðslu sem haldnir voru í Stuttgart í febrúar 2024, hafnaði liðið í þriðja sæti, sem er besti árangur Íslands á leikunum til þessa. Liðið fékk gullverðlaun í báðum keppnisgreinum sínum og skilaði meira en 91 stigi af 100 mögulegum. Þessi árangur jafnar fyrri þriðja sæti liðsins frá fyrri leikunum.
Undirbúningur fyrir heimsmeistaramótið í matreiðslu sem fer fram í Lúxemborg í nóvember 2026 er þegar hafinn. Snædís Xyza Mae Jónsdóttir landsliðsþjálfari stýrir liðinu en hún þjálfaði liðið einnig fyrir Ólympíuleikana 2024. Hún hefur mikla reynslu í keppnismatreiðslu og var t.d. í liðinu þegar liðið komst fyrst á pall á stórmóti 2020.
Með áframhaldandi stuðningi og samstarfi er stefnt að því að íslenska kokkalandsliðið nái enn betri árangri á heimsmeistaramótinu í Lúxemborg árið 2026.
„Fyrir okkur er gríðarlega mikilvægt að sem flest fyrirtæki í sem tengjast matvælum á einhvern hátt séu með okkur í liði til að tryggja það að við verðum með eitt besta, ef ekki það besta, Kokkalandslið í heimi. Að Tandur bætist nú í hópinn er mikið ánægjuefni fyrir okkur og við hlökkum gríðarlega til samstarfsins,“ segir Þórir Erlingsson, forseti Klúbbs matreiðslumeistara.