Veitingafólkið og Selfyssingarnir Tommi á Kaffi krús og Silja á Konungskaffi á Selfossi halda sína árlegu kökukeppni, þar sem annars vegar er keppt í flokki osta- og skyrkakna og hins vegar í flokki brauðterta.
Keppnin fer fram sunnudaginn 25. maí næstkomandi og verða kökurnar til sýnis frá klukkan 13:00 - 15:00 sama dag fyrir framan Konungskaffi í Miðbæ Selfoss. Úrslitin verða síðan kunngjörð klukkan 14.00 í Miðbæ Selfoss með pomp og prakt.
Fyrsta keppnin fór fram fyrir 11 árum á Kaffi krús og var þá bara Ostakökukeppni, sem síðan þróaðist í Osta- og skyrkökukeppni. En á 10. aldursári keppninnar, í fyrra, var Konungskaffi fengið með og brauðtertukeppni bætt inn. Keppnin sló í gegn í fyrra og vakti mikla athygli víða um land.
Sigurvegarar í fyrra voru Anna Margrét Magnúsdóttir og Jessica Thomasdóttir og komu 16 kökur í keppnina. Gaman er að geta þess að Hildur Lúðvígsdóttir hefur alls unnið keppnina 3 sinnum.
Fyrir þátttakendur þarf að skila inn kökum ásamt innihaldslýsingu fyrir klukkan 11:45 sunnudaginn næstkomandi, þann 25. maí á Konungskaffi. Nánari upplýsingar um keppnina og skráningu er að finna hér.
Vegleg verðlaun og viðurkenningar eru í boði en allir þátttakendur fá 10.000 króna gjafabréf á Kaffi Krús og 10.000 króna gjafabréf á Konungskaffi. Vegleg verðlaun fyrir 1., 2. og 3. sætið ásamt verðlaunum fyrir frumlegustu kökuna.
Dómarar í keppninni í ár eru:
Matarvefurinn mun fylgjast með keppninni og segja fréttir af niðurstöðunum að keppni lokinni.