Safarík grilluð toma- hawk-steik í blíðunni

Tomahawk-steikin er lostæti að njóta kolagrilluð með góðri heimagerðri bernaise-sósu …
Tomahawk-steikin er lostæti að njóta kolagrilluð með góðri heimagerðri bernaise-sósu ásamt grilluðu grænmeti. Ljósmynd/Jafet Bergmann Viðarsson

Jafeti Bergmann Viðarssyni, landliðs­ kokki og yfirkokki á Torfhús Retreat, er margt til lista lagt í matargerðinni og hann leikur við hvern sinn fingur þegar matur er annars vegar.

Hann er kominn á fullt við að grilla og nýtir hvert tækifæri sem gefst til að grilla á kolagrillinu. Í tilefni sumarsins ætlar hann að skella sinni uppáhaldssteik, tomahawk, á kolagrillið og laga heimagerða béarnaise-sósu og grilla sitt eftirlætis grænmeti.

„Mér finnst mun skemmtilegra að grilla á kolagrilli en gasi. Það er eitthvað við reykinn og stemninguna sem gerir matinn bragðmeiri og betri. Ég er sérstaklega hrifinn af góðu nautakjöti, og þegar ég vil gera extra vel við mig, þá er það stór og safarík tomahawk-steik sem fer á grillið.

Listakokkurinn Jafet Bergmann Viðarsson er hrifinn af góðu nautakjöti þegar …
Listakokkurinn Jafet Bergmann Viðarsson er hrifinn af góðu nautakjöti þegar grilla skal og hann vill gera vel við sig. mbl.is/Eggert Jóhannesson

En það er líka gaman að brjóta upp og prófa annað – grillaður hvítur fiskur getur verið virkilega góður og kemur mörgum á óvart. Ég myndi vilja sjá fleiri prófa það,“ segir Jafet.

Aðspurður segir Jafet að hann sé ávallt metnaðarfullur þegar kemur að því að velja meðlæti sem gerir máltíðina enn betri.

„Meðlætið skiptir svo sannarlega máli, sérstaklega þegar verið er að grilla steik. Þá má sósan helst ekki klikka – ég er algjör béarnaise-sósukall og finnst ekkert toppa góða heimagerða béarnaise-sósu með grilluðu kjöti. Með henni erum við oft með bakaða kartöflu, grillaðan maís og brokkólísalat sem frískar upp á diskinn og bætir bæði áferð og lit.

Rétturinn tengist góðum minningum

„Þessi réttur tengist líka góðum minningum. Ég eldaði hann oft þegar ég vann í veiðihúsum víðs vegar um landið, og hann vakti alltaf mikla lukku meðal gesta. Í dag elda ég þetta helst við sérstök tilefni – eða þegar það er bongóblíða og tilvalið að kveikja í grillinu og njóta.“

Jafet deilir hér með lesendum uppskriftinni að þessari dýrðlegu máltíð sem á svo sannarlega við þegar sólin skín.

Svo ljúffengt að njóta þessa að grilla í sumarblíðunni alvöru …
Svo ljúffengt að njóta þessa að grilla í sumarblíðunni alvöru steik, maís og aspas. Ljósmynd/Jafet Bergmann Viðarsson

Grilluð Tomahawk borin fram með heimagerðri bernaise, brokkólísalati og grilluðu grænmeti
Fyrir 2
Tomahawk

  • 1 Tomahawk-steik
  • Salt og pipar eftir smekk
  • Kryddblanda ef vill að eigin vali eða bara salt og pipar

Aðferð:

  1. Kryddið steikina með grillblöndu, salti og pipar.
  2. Byrjið á því að grilla hringinn á steikinni og svo báðar hliðar í 2 mínútur.
  3. Takið síðan steikina af grillinu og látið hvíla í 5 mínútur og setjið svo beint aftur á grillið og grillið þar til kjarnhitinn er 48°C og takið hana svo aftur af og leyfið henni að hvíla upp í 54°C.

Bernaise-sósa

  • 225 g smjör
  • 4 eggjarauður
  • 1 msk. bernaise essence
  • 1 msk. estragon
  • 1 tsk. Kjötkraftur
  • Salt eftir smekk

Aðferð:

  1. Bræðið smjör við vægan hita án loks og forðist að það verði of heitt.
  2. Hrærið eggjarauðunum saman og setjið skálina í heitt vatnsbað.
  3. Eggjarauðurnar þurfa að vera við stofuhita.
  4. Hellið smjörinu rólega út í og hrærið stöðugt í blöndunni á meðan. Bætið við 1 msk. bernaise essence, 1 msk. estragon og 1 tsk. kjötkrafti.
  5. Saltið síðan eftir smekk. Hrærið þar til sósan þykknar.

Brokkólísalat

  • 1 brokkólí
  • 100 g steikt beikon, mulið
  • ½ rauðlaukur, smátt saxaður
  • 50 g trönuber
  • 50 sólblómafræ eða furuhnetur
  • 100 g rifinn ostur
  • ½ dl majónes
  • ½ dl sýrður rjómi
  • 1 msk. edik
  • 1 tsk. sykur
  • Salt og pipar eftir smekk

Aðferð:

  1. Skerið brokkolíið í litla bita og setjið í skál.
  2. Bætið við muldu og steiktu beikoni, smátt söxuðum rauðlauk, trönuberjum, sólblómafræjum eða furuhnetum og rifnum osti.
  3. Hrærið saman majónesi, sýrðum rjóma, ediki, sykri og salti og piprið eftir þörfum.
  4. Blandið síðan dressingunni við salatið og kælið í minnst 30 mínútur í ísskáp.

Grillað grænmeti

Grillaður maís

  • 2 stk. maís, ferskur eða frosinn sem er látinn þiðna fyrir grillun
  • Smjör eftir smekk
  • Salt og pipar eftir smekk
  • Chilli ef vill
  • Rifinn ostur ef vill

Aðferð:

  1. Setjið heilan maís á grillið og grillið í 10–15 mínútur, snúið reglulega þar til hann hefur fengið brúnaða kanta.
  2. Smyrjið með smjöri og stráið yfir salti og pipar – má líka bæta við chili eða rifnum osti.

Grillaður aspas

  • 1 búnt aspas
  • Olífuolía eftir smekk
  • Salt og pipar eftir smekk
  • Sítrónusafi úr ferskri sítrónu eftir smekk
  • Rifinn ostur ef vill

Aðferð:

  1. Skerið neðri endann af aspasnum, veltið upp úr ólífuolíu, salti og pipar.
  2. Grillið í 2–4 mínútur á hvorri hlið, þar til aspasinn mýkist og fær grillrendur.
  3. Má einnig skvetta yfir sítrónusafa eða rífa yfir ost ef vill.


Grillaðar kartöflur

  • 2-4 bökunarkartöflur
  • olía eftir smekk
  • Saltflögur eftir smekk

Aðferð:

  1. Setjið bökunarkartöflur í álpappír með olíu og salti, setjið síðan á efri hilluna á grillinu í um það bil 45 mínútur.
  2. Getið stungið prjón í kartöflurnar til að finna hvort þær séu bakaðar í gegn.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
OSZAR »