Úrslit eru kunn í barþjónakeppni World Class þar sem Leó Snæfeld barþjónn tók bikarinn heim en mikið var um að vera í Iðnó síðastliðinn mánudag og þriðjudag þar sem fram fóru þrjár áskoranir í World Class þar sem barþjónar söfnuðu stigum.
Eins og áður sagði sigraði Leó World Class-barþjónakeppnina með glæsibrag. Hann mun því keppa fyrir Ísland í alþjóðlegu World Class-barþjónakeppninni í haust í Toronto í Kanada þar sem keppnin fer fram í ár.
Gefin voru verðlaun fyrir barþjóna sem voru efstir í áskorunum og sigraði Martin Cabejsek Don Julio nándaráskorun, Dagur Jakobs frá Apótekinu var stigahæstur með Johnnie Walker Pop-up barinn og Leó vann óvissuboxið og hraðakeppnina.
Dómarar lokakvöldsins voru Tim Philips-Johanson sem er sendiherra Johnnie Walker alþjóðlega, Hrefna Sætran frá Fiskmarkaðnum, Jakob Eggertsson sigurvegari síðustu World Class-keppni og Jónas Heiðar sem sigraði World Class árið 2017 en þeir hafa verið þjálfarar keppenda í vetur.
„Á mánudag settu átta barþjónar upp pop-up bar þar sem þeir kynntu kokteil gerðan úr dýru eðalviskíi, Johnnie Walker Blue Label, með innblæstri frá tísku og list. Gestir fengu miða þar sem þeir gátu valið sinn uppáhaldsbar og var þátttakan frábær og húsfyllir allan tímann,“ segir Sóley Kristjánsdóttir vörumerkjastjóri Ölgerðarinnar.
Óvissubox frá Fiskmarkaðnum
Þrír stigahæstu sem kepptu uppi á sviði í Iðnó á þriðjudagskvöld voru Dagur Jakobs frá Apótekinu, Hrafnkell Ingi, alla jafna kallaður Keli, frá Skál! og Leó Snæfeld frá Jungle. Þeir reiddu fram tvo drykki úr óvissukörfu sem Hrefna Sætran setti saman úr gæðahráefnum sem falla til á Fiskmarkaðnum.
„Þar mátti finna áhugaverð og óvenjuleg hráefni eins og safann frá súrsuðum sveppum og engifer, flugfiskahrogn, sýróp frá niðursoðnum mandarínum, nori-þara, shichimi sjö-kryddablöndu, safann af kimchi, cantalope melónu, sushi hrísgrjón og sæta maríneringu frá miso,“ segir Sóley.
„Barþjónarnir höfðu klukkustund til að vinna með hráefnin í eldhúsi Iðnó og var virkilega áhugavert að sjá og smakka drykkina sem komu út úr þessari áskorun. Barþjónar gerðu drykki fyrir framan dómnefnd og voru tengdir hljóðnema svo áhorfendur gátu fylgst vel með,“ bætir Sóley við.
Kvöldið náði hámarki í hraðakeppninni þar sem efstu þrír barþjónar fengu pöntun með 6 drykkjum sem þeir vissu ekki fyrirfram. Þeir höfðu 5 mínútur til að undirbúa barinn eftir að sjá pöntunina og síðan hófst tímatakan, 6 mínútur. Til að gæta jafnræðis fengu allir barþjónarnir sömu drykkjarpöntun og svo áttu dómarar að upplýsa hvort þeir myndu borga fyrir drykkinn eða ekki með grænu eða rauðu flaggi.