Uppáhaldsdrykkur Hákons er „Duck Tails“

Ljósmynd/Hakon Hovdenak

Heiðurinn af helgarkokteilnum að þessu sinni á Hákon Freyr Hovdenak hjá Hovdenak Distillery eimingarhúsinu. En hann og eiginkona hans, Brynja Hjaltalín, hafa unnið til fjölda verðlauna fyrir vörur sínar undanfarin misseri og vakið athygli á erlendum vettvangi.

 

Kokteillinn ber enska heitið Duck Tails og í honum er verðlaunaginið Stuðlaberg. Þessi drykkur er í miklu uppáhaldi hjá Hákoni og hann langaði til að deila uppskriftinni með lesendum matarvefsins í tilefni þess að það er að koma helgi.

Duck Tails

  • 50 ml Stuðlaberg Gin
  • 25 ml appelsínusafi
  • 25 ml sítrónusafi
  • 25 ml svart tesíróp, sjá uppskrift fyrir neðan
  • 15 ml rjómi
  • 1 eggjahvíta
  • 35 ml tonik
  • Klaki eftir þörfum

Aðferð:

  1. Blandið saman öllu nema tónik í hristara og hristið vel í um 15 sekúndur með miklum klaka.
  2. Sigtið svo úr hristaranum í hlutlaust glas, losið ykkur við klakann og hristið drykkinn aftur án klaka í um 20 sekúndur.
  3. Hellið svo tónik í glasið sem drykkurinn á að vera borinn fram í og sigtið svo drykkinn úr hristaranum í glasið með tónikinu.
  4. Þá ætti að myndast þétt froða og þá er drykkurinn klár.

Svart tesíróp

  • 200 ml vatn
  • 300 g sykur
  • 2 pk. Earl Grey te

Aðferð:

  1. Hitið vatnið í potti og látið suðu koma upp.
  2. Takið svo pottinn af hellunni, bætið tepokunum út í og látið standa í lokuðum potti í um það bil 4 mínútur.
  3. Bætið svo sykrinum út í og hrærið á lágum hita þar til sykurinn er bráðinn.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
OSZAR »