Í Glófaxa má finna eitt glæsilegasta úrval af útidyra- og bílskúrshurðum sem völ er á svo ekki sé minnst á New York-veggina vinsælu sem fólk notar til að stúka af svæði á heimilinu.
„Við hjá Glófaxa höfum flutt inn hurðir frá þýska framleiðandanum Hörmann síðan árið 1987 og hafa þær sannað gildi sitt í gegnum árin hvað varðar gæði og endingu við krefjandi aðstæður. Með hurðum frá Hörmann sameinast gæði, fagurfræðilegt útlit og tækni allt í sömu vörunni,“ segir Karl Maack framkvæmdastjóri Glófaxa og Jón Helgi Pálsson eigandi fyrirtækisins bætir við að það sé hentugt að versla við fyrirtæki sem hefur svo mikla reynslu á markaði þegar kemur að smíði og uppsetningu á hurðum utandyra. „Glófaxi er 75 ára á árinu en fyrirtækið var upphaflega blikksmiðja sem stofnuð var í Reykjavík af Benedikt Ólafssyni og Björgvini Ingibergssyni í ársbyrjun 1950.“
Fyrirtækið hefur þróast í gegnum árin frá því að vera hvað þekktast fyrir eigin framleiðslu hérlendis á stálhurðum sem markaði hér áður ákveðna staðla, í að vera nú umboðsaðili fyrir Hörmann, einn stærsta og virtasta hurðarframleiðanda í Evrópu. „Innflutningur frá Hörmann hefur farið vaxandi á umliðnum árum og er nú stærsti þátturinn í starfsemi félagsins. Hörmann framleiðir nánast allar gerðir hurða, meðal annars iðnaðarhurðir, bílskúrshurðir, útidyrahurðir, stálhurðir og svo mætti lengi áfram telja, í mismunandi útfærslum.
Þegar kemur að sérútbúnum hurðum fyrir hjúkrunarrými, sjúkrahús og aðrar stofnanir þá erum við með lausnina fyrir þig, hvort sem hurðirnar eiga að vera úr gegnheilum við eða meðhöndlaðar með sterku yfirborði sem þola mikinn ágang og uppfylla bæði hljóð- og eldvarnarkröfur,“ segir Karl sem hafði starfað hjá Birgisson í sjö ár áður en hann flutti sig yfir í Glófaxa í upphafi ársins.
„Birgisson ehf. kom inn sem nýr hluthafi í Glófaxa árið 2023 og á helmingshlut í fyrirtækinu. Það eru mikil samlegðaráhrif í rekstri fyrirtækjanna. Hjá Birgisson færðu innréttingar, gólfefni og hurðir fyrir frágang innandyra og á móti hjá Glófaxa færðu hurðir fyrir fráganginn utandyra. Það er því hægt að fara mjög langt í að klára að innrétta frá a til ö með okkur. Við erum með sýningarsal Glófaxa á Bæjarflöt 19a, sem er um 200 fermetrar að stærð, þangað sem við fluttum úr Ármúlanum árið 2023,“ segir Karl.
„Útidyra- og bílskúrshurðirnar eru bæði glæsilegar og uppfylla þær kröfur sem til þeirra eru gerðar. Hægt er að fá þær vottaðar með ákveðinni innbrotsvörn og því óhætt að segja að hurðirnar frá okkur veiti viðskiptavinum okkar ákveðið öryggi,“ segir Karl og bætir við að einnig sé hægt að fá þessar hurðir með fingurskanna til þess að opna þær eða til dæmis vera með app í símanum sem gerir þér kleift að opna dyrnar þó svo þú sért ekki heima. „Það hentar til dæmis fjölskyldum; ef börnin læsa sig úti þá er alltaf hægt að hjálpa þeim að komast inn en að sjálfsögðu lætur appið þig einnig vita ef dyrnar eru opnar hjá þér. Hurðirnar eru fáanlegar í mörgum útfærslum og hægt er að fá þær með handfangi eftir endilangri hurðinni og einnig hægt að koma fyrir ljósi í handfanginu sem gefur óbeina lýsingu og gerir aðkomuna að húsinu tignarlega,“ segir hann.
Hverjir versla helst við fyrirtækið?
„Það eru byggingarverktakar, fyrirtæki í sjávarútvegi, stofnanir á heilbrigðissviði og einstaklingar sem leita að góðum vörum sem endast. Vörurnar okkar eru fyrir þá sem vilja endingargóðar, tæknivæddar og glæsilegar hurðir, sem sagt gæði í bland við nýjustu tækni. Við leggjum upp með að þjónusta viðskiptavini okkar vel og í gegnum allt ferlið, allt frá ráðleggingum við val á vöru, uppsetningu og þjónustu ef yfirfara þarf vöru eftir einhvern tíma.“
Af hverju ætti fólk að fjárfesta í góðri útidyra- og bílskúrshurð?
„Vegna þess að framhlið hússins, útidyrahurðin og bílskúrshurðin, myndar fyrstu áhrifin við aðkomu. Það hefur verið vinsælt undanfarið að hafa bílskúrshurðir sem hægt er að klæða í sama útliti og húsið. Bílskúrshurðin kemur þá í beinni línu (e. flush) við veggina á húsinu og fellur þá vel inn í arkitektúrinn á húsinu sjálfu. Dökkir litir hafa einnig verið vinsælir undanfarið og eru þá útidyrahurð og bíslkúrshurð teknar í sama lit.“
Hvaða aðrar vörur eru vinsælar núna?
„Við bjóðum einnig upp á glerveggi (e. steel loft doors) frá Hörmann sem sumir kalla New York-veggi. Þeir eru mjög vinsælir núna á skrifstofuna og inn á heimili þar sem þarf að stúka af svæði. Hægt er að sameina glerveggina með hurð eða rennihurð úr sömu línu sem gefur stílhreint yfirbragð. Hægt er að vera með aðgangsstýringu á hurðunum, kortalesara sem dæmi, ef glerveggirnir eru fyrir skrifstofuna.
Geymsluboxin okkar fyrir garðinn, pallinn eða svalirnar eru vinsæl á þessum árstíma. Þetta eru vönduð læsanleg geymslubox, vatnsþétt með mjúkloku sem henta frábærlega fyrir hluti sem gott er að koma í skjól þegar þess þarf.
Einnig bjóðum við upp á vönduð skápakerfi fyrir búningsklefa í sundlaugum, íþróttahúsum, vinnustöðum og baðlónum. Skáparnir þola bæði vatn og mikinn raka og henta því fullkomlega við slíkar aðstæður.
Að lokum erum við einnig með lausnir til þess að aðgangsstýra umferð. Opnanlegu hliðin frá Hörmann eru gerð til að stýra umferð inn á sumarhúsasvæði og bílastæði en einnig stólparnir til að loka af svæðum í borgum og bæum til að meina umferð að þeim. Stólpunum er hægt að stýra rafrænt til að hleypa umferð í gegn á ákveðnum tíma en þess á milli hafa lokað,“ segir Karl Maack framkvæmdastjóri Glófaxa að lokum.