Vildi afmá upptöku úr þinginu

Karli Gauta Hjaltasyni varð það á, í umræðu um bókun 35 í þinginu í liðnum mánuði, að mæta án hálstaus í þingsal og fór meira að segja tvisvar í pontu svo illa til reika.

Eftir að Karl Gauti áttaði sig á mistökunum steig hann á ný upp í pontu, með hálstau, og lýsti mikilli eftirsjá og sorg yfir atvikinu áður en hann bað forseta afsökunar.

Karl Gauti Hjaltason sá mikið eftir því að hafa láðst …
Karl Gauti Hjaltason sá mikið eftir því að hafa láðst að bera hálstau í þingsal. Skjáskot/Alþingi

Bað hann forseta enn fremur um að hlutast til um það að upptaka af ræðum hans án hálstaus yrði afmáð, en hljóðinu haldið.

Þórarinn Ingi Pétursson þingmaður Framsóknarflokksins rifjar atvikið upp í Dagmálum, en hann var gestur þáttarins ásamt Jens Garðari Helgasyni varaformanni Sjálfstæðisflokksins.

Virðing fyrir þinginu

Í þættinum eru þingstörf rædd á léttum nótum og klæðaburður þingmanna er þar ekki undanskilinn.

Nokkrir flokkar hafa haldið í þá hefð að karlmenn beri ávallt hálstau í þingsal. Þeir Þórarinn og Jens segja bindisskyldu flokkanna snúast um virðingu fyrir þinginu.

Þórarinn Ingi Pétursson og Jens Garðar Helgason slógu á létta …
Þórarinn Ingi Pétursson og Jens Garðar Helgason slógu á létta strengi í Dagmálum. mbl.is/María

„Ef það væri ekki einhver svona rammi um þetta og þetta væri algjörlega frjálst, þá myndi ég náttúrulega bara mæta í vinnugallanum, svona þægilegum klæðnaði,“ segir bóndinn Þórarinn og vísar þar í Claas-samfestinginn sem er sívinsæll meðal bænda.

Brot úr þættinum og ræðu Karls Gauta má sjá í myndspilaranum hér fyrir ofan. Áskrifendur geta horft á þáttinn í heild sinni með því að smella á hlekkinn hér fyrir neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
OSZAR »